sunnudagur, maí 12, 2013

með kveðju frá Kalamazoo

Laugardagskvöld, eða réttara sagt aðfaranótt sunnudags. Mér finnst ég vera nýkomin á ráðstefnuna, en það er víst bara hálfur sólarhringur eftir og svo tekur við löng heimferð.

Fyrirlestrahaldinu er lokið, ég hélt fyrirlestur í gær og náði að klára hann fjórum tímum fyrir flutning - sem ég held að sé met, oft hef ég verið að fram á síðustu stundu (sem er svo sannarlega ekki til eftirbreytni) - reyndar  lagaði ég helling eftir að ég prentaði hann út, þannig að þegar ég las hann upp þá var blaðið ansi marglitt (ég á nefnilega svo fínan marglitan penna, sem ég nota óspart). Málstofurnar okkar gengu vel, þetta voru allt í allt átta fyrirlestrar um hið yfirnáttúrulega á íslenskum miðöldum og allt gekk eins og í sögu. Á milli fimmtíu og sextíu manns hlustuðu á fyrirlestrana og það er víst óvenjugóð mæting á fyrirlestra um forníslenskar bókmenntir, allt að tvisvar til þrisvar sinnum fleiri en vaninn er.

Úrvalið af fyrirlestrum, málstofum, hringborðsumræðum og fleiru er gífurlega mikið - svo mikið að það eru u.þ.b. 30 fyrirlestrar í gangi í einu og oft erfitt að velja á milli - sér í lagi þegar velja verður út frá heitinu einu saman, hvergi virðist vera mögulegt að nálgast útdrættina sem allir þurftu þó að skila. Ég hef ekki lent á neinni slæmri málstofu ennþá en ekki heldur neinni sem er afbragð og það sem kom mér mjög á óvart var að fyrir utan málstofuna okkar þá held ég að ekkert hafi verið talað um goðafræði - hvorki norræna né af öðrum ættum. Fyrirlestrarnir sem ég hef farið á hafa verið margvíslegir en ég hef ekki enn hitt á virkilega góðan fyrirlestur - margir verið fínir, en enginn enn sem ég er dauðfegin að hafa séð - en ég hef tvö tækifæri til slíks í fyrramálið.

Á kvöldin hafa svo verið alls konar skemmtiatriði og móttökur með ókeypis áfengi - í dag var m.a.s. bjórsmökkun á bjór og miði sem eru með miðaldaaðferðum - það var ofsalega gott, enda mikið notað af hunangi og blómum í þá, þannig að þeir eru bragðgóðir og oft mjög sterkir, sterkasti bjórinn var heil 18%. Sem dæmi um skemmtiatriði má nefna leikgerð sem við sáum í gær á því atriði í Hervararsögu þegar Hervör vekur Angantý upp til að eignast sverð hans og á undan því var kona sem söng og spilaði á píanó frumsamin lög við þau fimm ljóð sem orðið höfðu hlutskörpust í ljóðasamkeppni upp úr Silmarion eftir Tolkien. Það var mjög flott. Reyndar kemur mér mjög á óvart sú áhersla sem lögð er á Tolkien hér, fullt af málstofum um verk hans og hann sjálfan sem fræðimann og höfund - auk svo allra skemmtiatriðanna sem boðið er upp á. Í kvöld var svo The Pseudo Society með fyrirlestra, en það eru uppdiktaðir fyrirlestrar þar sem gert er grín að ráðstefnugestum og flestir bráðfyndnir - ég skemmti mér best yfir því þegar einn komst að því að geimverur, nánar tiltekið Dr. Who, hefðu verið valdir að hvarfi frænda Ríkharðs þriðja. Við tók svo dansiball sem var ágætt en aðeins of hávært og mistækt í lagavali, þannig að ég entist bara þar í tvo tíma.

Ég hef dvalið á einum stúdentagarðanna og jarðhæð þess er bókaútstillingin, þar eru u.þ.b. 60 bókaútgefendur með bása þar sem þeir kynna bækurnar sínar (margar glænýjar), raða þeim upp og svo er hægt að kaupa eða panta. Ég hef gengið þarna í gegn mörgum sinnum á dag og alltaf sé ég eitthvað nýtt sem er áhugavert. Enn sem komið er hef ég bara keypt tvær bækur hér - ég hef farið mjög skipulega í þetta, skrifað niður titla og farið svo á netið og gáð hvort þær bækur séu til á Landsbókasafninu. Sem er sama aðferð og ég notaði í bókabúðinni um daginn, sat við tölvuna og fór í gegnum hvaða bækur væru til þar og hvaða bækur væri hægt að lesa í kyndli og væru kyndilvænar (þ.e. ekki með fullt af neðanmálsgreinum og töflum) - þá endaði ég eftir mikla yfirlegu með sex bækur, hver annarri eigulegri og fallegri en skilaði fleiri bókum það aftur í hilluna og ætla að reyna að komast yfir þær síðar.

Þrátt fyrir mikla möguleika á félagslífi hef ég svo sem ekki kynnst mörgu nýju fólki, því flestir halda sig við þá hópa sem þeir tilheyra, en ég hef kynnst mörgum vel sem ég kannaðist bara við áður, þannig að það er þó nokkuð. Auk þess sem ég hef hitt nokkra sem ég þekki frá fornu fari, suma algjörlega óvænt.  Ég held að eitt af því sem gerir þessa ráðstefnu svona vinalega sé hvað allir hérna eru miklir lúðar (á jákvæðasta mögulega hátt) - það er ekkert of skrýtið til að mega vera með, ekkert miðaldatengt sem hægt er að skammast sín fyrir að halda upp á, þannig að þetta er mjög öruggt umhverfi. Í gær hitti ég m.a.s. strák sem gekk út um allt með langboga sem hann hafði smíðað.  Ég er fegin að hafa komið hingað, svo fegin að ég var farin að íhuga að fara aftur á þessa ráðstefnu að ári.

Engin ummæli: