miðvikudagur, nóvember 17, 2004

brjálaði bormaðurinn

Stundum er barasta ekkert gaman að búa í blokk. Eins og til dæmis núna - þá er einhver að negla og bora og brjóta niður veggi og svona í einhverri nærliggjandi íbúð og það heyrist alltof vel. Svo á milli skorpnanna hjá honum heyrist ýmist í krakkagríslingnum sem er að æfa sig á píanó eða þeim sem er að læra á klarinett. Ég ákvað að taka þátt í keppninni og spila nú tónlist á hæsta af miklum móð - held reyndar að það hafi öfug áhrif því þá virðast keppinautar mínir um óró og ónæði færast allir í aukana og hávaðinn verður óumbærilegur.

Kennslan gengur ágætlega þessa dagana, ég er búin að fatta hvernig er best að láta þau vinna eitthvað í tímum. Annars kemst ég betur og betur að því hvað ég er mikill MR-ingur inn við beinið. Ég hélt nefnilega að mér hefði tekist að bæla það algjörlega niður undanfarin ár, en núna verð ég oft að bíta í tunguna til að koma ekki með athugasemdir á borð við - en ég gerði þetta í MR, þið ættuð að geta gert það líka. Ég skellti til dæmis 1. bekknum mínum í stafsetningarpróf í dag og hvað þau vældu - samt las ég bara upp tæpan helming af tiltölulega léttri æfingu. Auk þess að væla yfir erfiðleikastigi hennar, þá skrifaði helmingurinn af bekknum í hverja línu þótt ég margtæki það fram að þau ættu að skrifa í aðra hverja - þau þóttust ekki geta það.

Svo núna hatar allur 1. bekkurinn minn, mér er reyndar sama um það en er að velta þessu fyrir mér með hvort ég sé haldinn þessum skelfilega MR-hroka. Held reyndar að ástæðan sé sú að ég hef aldrei kennt í menntaskóla, bara verið nemandi í einum slíkum og miði því allt við það sem við vorum látin gera - nema náttúrulega að allt fari versnandi og þessi ´88 grey séu bara ekki á sama þroskastigi og '80 árgangurinn á sínum tíma.

Talandi um níunda áratuginn, þá verður svona '85 ball á morgun og búið að skreyta allan skólann og allir flestir eru í fötum frá þessu tímabili. Skil ekki hvernig tískan gat þróast svona, en þetta er gaman að sjá.

Annars er fullt af afmælum um þessar mundir, ber þar fyrsta að nefna skæruliðana tvo sem báðir eru nú orðnir sjö ára. Dagbjartur átti afmæli á laugardaginn og Gunnar Kristinn telst vera afmælisbarn dagsins í dag - til hamingju báðir tveir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir kveðjuna til Gunnars Kristins. :-)