föstudagur, nóvember 26, 2004

Föstudagur til frægðar

Þá er kominn föstudagur og helgarfrí - jibbý!!!
Reyndar veit ég ekki hvort verður mikið um frí, en það er bara gamall og góður vani að fagna helgarkomu. En eftir viku get ég gert það með sanni, því þá verða allar vinnurnar mínar nánast búnar og þar sem ég gerðist aumingi og tók engan kúrs í Háskólanum á þessari önn get ég farið að jólast á fullu - í fyrsta sinn í 12 ár sem ég þarf ekki að fara í próf í desember.

Annars er mér farin að þykja kennslan skemmtileg - finnst ég vera komin upp á lag með þetta (er ekki viss um að nemendurnir séu sammála). Svo núna er ég að hugsa um að fara í kennslufræðina eftir svona þrjú til fjögur ár - held að ég hafi gott af að gera eitthvað sem tengist skólum ekkert í millitíðinni. Þannig að ég er allaveganna komin með áætlun að framtíðinni.

Í dag var óvenju gaman í strætó á leiðinni heim, því hann var troðfullur af krökkum úr FÁ sem voru að dimitera - í Skrekkbúningum. Þar hitti ég vinkonu systur minnar og vá hvað mér fannst ég vera orðin gömul að hún sem er alltaf svo lítil í hausnum á mér sé að fara að útskrifast úr menntaskóla um áramótin.

Svo verð ég auðvitað að tilkynna á síðunni að ein frænka mín gerðist svo fræg í gær að komast á forsíðu Séð og heyrt. Þar var hún með kærastanum sínum og þau voru að tala um samband sitt og fleira og flottar myndir af þeim innan í blaðinu. Það sorglega er samt að ég hafði ekki hugmynd um að hún ætti kærasta fyrr en ég sá Séð og heyrt í gær - og það segir sitt um fréttaflæðið í fjölskyldunni - samt hitti ég pabba hennar og bróður fyrir tveimur vikum og þeir minntust ekkert á þetta

1 ummæli:

Ragnheidur sagði...

Einu sinni las ég um það í Séð og heyrt að frænka mín væri ófrísk. Þá varð ég alveg hryllilega móðguð yfir því að allir skyldu hafa gleymt að segja mér frá því.