miðvikudagur, janúar 17, 2007

Malfræðifasismi?

Að vera prófarkalesari er ekki alslæmt. Stundum fær maður að lesa áhugaverða texta og svo er hægt að líta á þetta sem leik - finndu villurnar (reyndar hættir sá leikur að vera skemmtilegur þegar villurnar eru orðnar fleiri en 10 í stuttum texta) eða hver skrifaði þetta? sem felst í því að fatta hvaða blaðamaður skrifaði greinina út frá stíl, efnistökum og umfram allt villum (á tíma var ég orðin virkilega góð í því). Og svo kemur fyrir að villur eru dásamlega fyndnar og nú skil ég íslenskukennarann minn í MR mjög vel þegar hann lofaði að gefa okkur plús fyrir frumlegar villur í ritgerðum. Eftir hverja ritgerðatörn safnaði hann saman skondnum villum og las upp fyrir okkur (nafnlaust að sjálfsögðu) og bað okkur um að varast þær - þessi hlátursaðferð virkaði mjög vel. Ég sé svolítið eftir því að hafa ekki verið duglegri við að skrifa niður ýmis gullkorn sem hverfa við yfirlestur.

Hins vegar koma sumar villur mér alltaf jafnmikið á óvart og stundum hef ég horft í örvæntingu á tölvuskjáinn og velt fyrir mér hvaða framtíð íslensk tunga eigi sér. Svo ég minnist ekki á slettur, lélega stafsetningu og endalaust rugl á litlum og stórum staf, þá er það til dæmis nánast teljandi á fingrum annarrar handar hversu oft ég hef séð á boðstólum rétt skrifað, svo virðist sem mörgum finnist eðlilegra að hafa það á boðstólnum eða á borðstólum og jafnvel á borðstólnum. Munurinn á forsetningunum af og virðist líka vefjast fyrir mörgum og mér til mikillar undrunar eru margir sem rugla saman forsetningunum af og á.

En það sem ég þoli síst af öllu (og fer virkilega í taugarnar á mér og er hiklaust breytt) er hið dæmigerða "íþróttatungutak", þar sem sögnin 'að hafa' er hunsuð og að vera búinn að notað í staðinn. Setningar á borð við við erum búnir að vera að spila vel / að þeir séu búnir að vera að tala um (og ég hef séð dæmi um mun verri útúrsnúning en þetta) í stað þess að segja einfaldlega við höfum spilað vel / að þeir hafi talað um. Sama gildir um ofnotkun á dvalarhorfi með sögninni 'að vera' þeir eru að spila vel / þeir eru að hlaupa.

Ég skil hins vegar af hverju þetta orðfæri er kennt við íþróttamenn. Því flest dæmi um þetta eru í viðtölum við íþróttamenn - alveg sama hvað þau eru stutt, þá tekst þeim að koma þessu að. Ég hef hins vegar ekki enn komist að niðurstöðu um af hverju það stafar, en hitt veit ég að mig langar óneitanlega stundum til að kasta bolta í hausinn á þeim og sjá hvort það lagist ekki.

(Og þessi færsla er skrifuð eftir að hafa lesið yfir töluvert magn af viðtölum tengdum HM í handbolta)

2 ummæli:

Ragnheidur sagði...

Ég las þetta (http://www.halldoraj.com/blog/) strax á eftir þínu bloggi og datt í hug að þú hefðir gaman að. Svo er ég búin að vera að fara að koma mér. ;)

Nafnlaus sagði...

Þeir, sem geta ekki talað, eiga sennilega í vandræðum með að hugsa. Og ég, sem hef alltaf dáðst að íþróttamönnum og haldið, að til þess að ná árangri þurfi menn að vera gáfaðir. Mér skjátlast oftar og oftar nú í seinni tíð.