laugardagur, janúar 20, 2007

handbolti

Núna er HM í handbolta byrjað. Mig langar til að vera bjartsýn og spá því að "strákarnir okkar" komist á verðlaunapall (sem eru nokkurn veginn þær kröfur og væntingar sem flestir gera til þeirra í upphafi móts). En ég er hins vegar frekar svartsýn og er viss um að þeir lendi í þriðja sæti riðilsins og komist ekki áfram. Og jafnframt að það verði mjög dramatískt (eins og venjulega).

Fyrsti leikurinn gegn Áströlum á að vera auðveldur og verður það án efa, þó svo að pabbi hafi minnt mig á að Íslendingar hafi tvisvar mætt léttasta liðið í riðlinum í HM í fyrsta leik og tapað. En síðast þegar Íslendingar kepptu við Ástrala vannst leikurinn með um það bil 40 mörkum, þannig að ég er ekki hrædd um að þessi leikur tapist. Hin liðin í riðlinum eru Frakkar og Úkranar* og ég er ekki viss um hvernig innbyrðis leikur þeirra mun fara, hins vegar er ég viss um að sigurliðið úr þeim leik vinni Íslendinga líka og svo geri tapliðið og Íslendingar jafntefli, nema hvað tapliðið vinnur Ástrala með fleiri mörkum en Íslendingar og kemst því áfram. Ef Frakkar og Úkranar gera hins vegar jafntefli, þá væri alveg dæmigert að Íslendingar gerðu jafntefli við bæði liðin en dyttu samt út vegna þess að þeir ynnu Ástrala með færri marka mun en hin liðin.

Ég vona aftur á móti að ég reynist ekki sannspá, en það vill oft verða svo að liðunum sem ég held með tekst að klúðra öllu og tapa, þrátt fyrir hetjulega framgöngu. Samanber textann við Við gerum okkar besta (sem ég heyrði í útvarpinu í gær), en einhvern tíma var snúið út úr honum (held að það hafi verið Spaugstofan) og hefur sú útgáfa oft reynst raunsannari en sú upprunalega:
Við gerðum okkar, gerðum okkar, gerðum okkar besta, en það bara dugði ekki til.
Við gerðum okkar, gerðum okkar, gerðum okkar besta, en úrslitin voru alltaf öðrum í vil.
Við létum spila okkur upp úr skónum, við létum spila okkur upp úr skónum, við létum spila okkur upp úr skónum, það veit mín trú.
Við létum pakka okkur alveg saman, við létum pakka okkur alveg saman, við létum pakka okkur alveg saman og hananú.



*Finnst Úkranar miklu flottara orð en Úkraínumenn

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hingað til lands hafa flutt fjölmargir flóttamenn frá Kraína-héraði í Júgóslavíu, sem einu sinni var og hét.

Heita þeir þá Kranar?