mánudagur, janúar 29, 2007

manudagur

Að hafa frjálsan vilja er ekki alltaf skemmtilegt. Stundum vildi ég ekkert frekar en að einhver gæti tekið ákvarðanir fyrir mig. Ég þarf til dæmis að ákveða hvað ég ætla að gera næstu fimm til sex mánuði og kemst ekki að neinni niðurstöðu. Þrennt kemur til greina og eru kostir og gallar á öllu. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera og nenni varla að velta því fyrir mér svo ég er komin á það stig að langa til að kasta bara upp teningi um þetta eða hringja í einhverja spálínu. Eða í raun nota hvaða aðferð sem er til að þurfa sjálf ekki að bera ábyrgð á neinu eins aumingjalega og það hljómar ;o)

Annars virðist ég sem betur fer ekki hafa verið sannspá með gengi íslenska liðsins á HM, en tók eftir því að nokkrir Þjóðverjanna höfðu séð ljósið og gert eitthvað við hárið á sér sem gerði það auðveldara að þekkja þá í sundur á vellinum og að sjálfsögðu var sá með mest áberandi hárgreiðsluna valinn maður leiksins.

Svo sá ég þáttinn um Margit Sandemo í gær. 164 bækur á 40 árum! Ekki annað hægt að segja en að hún sé afkastamikil. En hitt kom mér á óvart hversu marga bókaflokka hún hefur skrifað sem hafa ekki verið þýddir á íslensku, einhvern veginn bjóst ég við að allir hefðu misst áhugann eftir Ríki ljóssins (því það voru vægast sagt vondar). En miðað við þær ótrúlegu vinsældir sem Ísfólkið hefur notið er það kannski ekki skrýtið að bókaforlög vilji gefa allt út sem hún skrifar. Ég veit ekki hvað það er sem gerir Ísfólksbækurnar svona skemmtilegt, en þær halda sínum sjarma, mér tókst meira að segja einu sinni að skrifa ritgerð í Háskólanum um þær (eða réttara sagt áhrif nafna persóna í þeim á nafngiftir Íslendinga).

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Íþróttafréttamaður Politiken segir, að Ísland sé „en nation, der i sportens verden ellers ikke skaber ’frygt’. Og som alle undervurderer helt refleksmæssigt.“
Við nánari könnun hefur hann komist að því, að danska liðið vanmetur Íslendinga um 5-7%. Hann er samt ekki í nokkrum vafa um að Danir séu betri en Íslendingar, bara að vanmatið komi ekki veltingi á bátinn, svo að hann fari að taka á sig sjó.