þriðjudagur, janúar 02, 2007

bless, bless 365

Ég fékk alveg yndislega áramótagjöf frá vinnunni, ég var rekin á föstudaginn. Ekki út af því að einhver gæti bent á að ég hefði staðið mig illa, heldur var ástæðan sögð vera sú að DV var selt og nýi ritstjórinn vildi bara einn prófarkalesara - þannig að núna get ég dólað á NFS næstu þrjá mánuði eða bara hætt um leið og ég fæ aðra vinnu. Þeir um það.

Það grátlega var að á fimmtudag var starfsmannafundur á DV þar sem var skýrt frá þessum breytingum og þar sagt að enginn myndi nauðugur missa vinnuna, heldur mættu starfsmenn velja á milli þess að flytjast yfir á nýja blaðið eða hætta. Ég var ekki búin að ákveða hvort ég myndi gera, ætlaði fyrst að sjá hvernig ætti að leysa málið með NFS-vaktirnar. En ég fékk ekkert val.

Reyndar var uppsögnin sjálf mjög fyndin, svona eftir á séð, og þegar ég lít til baka þá minnti þetta mig helst á atriði úr Brittas Empire - þar sem að annar aðilinn sem sá um þetta var svo ofurhress og sagði: "Gjörðu svo vel," þegar hún rétti mér uppsagnarbréfið. Ég spurði hvort ég ætti að þakka fyrir það og hún svaraði í sama glaðlega tón að það væri nú kurteisi. Toppurinn var samt þegar ég gekk út með grátstafinn í kverkunum og hún minnti mig nú á að ná mér í flugeld í matsalnum (áramótagjöf fyrirtækisins).

Þetta með flugeldinn bjargaði deginum algjörlega, því ég og aðrir í kringum mig gátum hlegið endalaust að þessum absúrdisma - allt í lagi þótt þú missir vinnuna, þú færð nefnilega flugeld í staðinn.
Annars sárvorkenndi ég þeim tveimur sem að þurftu að segja mér upp, því mér vitanlega réðu þau engu um það og virtist líða álíka illa og mér og ég held að ofurglaðværðin hafi verið stress.

Það sorglega er að mér þótti mjög gaman að vinna á DV og tímaritunum og mun sakna þess. Stemningin var oft með ágætum, sérstaklega í stressinu á fimmtudögum, þó svo að plássleysið hafi stundum haft slæm áhrif á einbeitinguna. Af þeim 21 sem deildu því litla rými sem við vorum í eru að minnsta kosti 13 sem hafa hætt eða verið sagt upp.

Það sem mér finnst þó leiðinlegast við þetta allt saman er að þessi þrjú blöð/tímarit sem ég las yfir og voru lögð niður - DV, Veggfóður og Hér & nú - voru víst öll á uppleið, sala jókst með hverju tölublaði og ritstjórnir þeirra voru bjartsýnar á framhaldið, en umbunin fór ekki eftir árangri.


(Og bara til að taka það fram þá veit ég að NFS heitir núna Fréttastofa Stöðvar 2, hitt nafnið er bara þjálla, og ég lít þannig á að DV hafi verið lagt niður, því að nýr ritstjóri þess ætlar að gjörbreyta öllum áherslum og færa það til nútímahorfs miðað við hvernig blaðið var 1998 og hvernig hann ímyndar sér að þróunin hefði orðið síðan.)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert hvort sem er alltof góð fyrir þetta fyrirtæki ;)
Úlla

Nafnlaus sagði...

Káinn kvað:
Góður, betri bestur
burtu voru reknir,
vondur, verri, verstur
voru aftur teknir.