fimmtudagur, júní 28, 2007

orð & bækur

Ég varð áðan virkilega fúl út í þá útgáfu orðabókarinnar sem við notum við vinnuna og gengur stundum undir gælunafninu Mörður. Hún gefur upp að það megi segja versla eitthvað þegar sú regla sem ég hef alltaf heyrt að sé algild og ég nota og passar við málkennd mína er að maður verslar einhvers staðar en kaupir eitthvað. Þetta er samt ekki í fyrsta skipti sem bókin ergir mig, því samkvæmt henni má, þvert á allar reglur sem ég hef lært, skrifa snéri í stað sneri og samrýmdur í stað samrýndur og margt fleira sem ég nenni ekki að telja upp núna en hefði leitt til rauðra strika hefði ég skrifað það á stafsetningarprófi eða í ritgerð.

Annars er ég að lesa alveg yndislega bók núna sem heitir Lost for Words - the Mangling and Manipulating of the English Language eftir John Humphrys sem er víst frægur á Englandi og hefur unnið sem pistlahöfundur í dagblöðum og verið þáttastjórnandi og fréttaþulur á BBC. Maðurinn er meinfyndinn og gerir grín að alls kyns ambögum sem hafa rutt sér til rúms í ensku. Ekki síst þegar fólk tekur upp á því að flækja einfaldan orðaforða og orðanotkun af því að það heldur að það sé fínt. Margt af því sem hann talar um má auðveldlega heimfæra upp á íslensku, þó svo að við virðumst vera komin mun styttra eftir þessum vegi til glötunar en Englendingar ;o)

Talandi um bækur, þá er ég farin að efast um raunveruleikaskyn mitt. Ég hikstaði ekkert á því að lesa bók um daginn sem fjallaði um galdramenn, vampírur, álfa og uppvakninga (þar af einn risaeðluuppvakning) á götum Chicago en átti í mesta basli með að samþykkja trúverðugleika bókar sem ég las nokkrum dögum síðar og fjallaði um kvenlögfræðing frá London sem fann lífshamingjuna í því að verða ráðskona í litlu sveitaþorpi og læra að þrífa og elda (reyndar fékk hún að liggja í sólböðum á milli og tæla garðyrkjumanninn).

Núna er svaka stuð í bakgarðinum hjá mér. KR og Fram eru að spila og á KR-vellinum er sko hitað almennilega upp með alls kyns slögurum og hátalarakerfið stillt svo hátt að glymur í hverfinu og svo sungið og hrópað og púað á meðan á leiknum stendur. Verst að ég sé ekki almennilega á völlinn héðan en stemningin skilar sér fullkomlega.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehe risaeðlusombí... ég sé það alveg fyrir mér :) En til hamingju með stöðuna úti. Mamma var að segja mér, en mundi ekki hvar það var. Hljómar samt voðalega spennó. Hvenær og hvert ferðu??? Kannski við náum einum frænkuhitting síðsumars, eða byrjar skólaárið þarna kannski snemma???

Kolfinna sagði...

Takk :o)

Ég fer reyndar strax í byrjun ágúst og er hrædd um að þú verðir ekkert komin til baka þá. Ég var ekkert farin að pæla í því að þurfa að kveðja og hitta fólk - fannst alltaf svo langt í brottförina hjá okkur báðum. En ég kem heim um jólin og þá getum við frænkast :o)
Ég verð í New York fylki - samt mun nær Kanada en borginni.

Þetta var sko heldur engin smárisaeðla heldur t-rex ;p