þriðjudagur, júní 19, 2007

villur

Ég grínaðist á tímabili oft með það að hið fullkomna starf fyrir mig væri að fá borgað fyrir að lesa. Sá lestur sem ég hafði í huga var svo sannarlega ekki prófarkalestur (enda var þetta áður en ég vissi að það væri atvinnugrein og löngu áður en ég uppgötvaði að það væri ekki skilyrði fyrir blaðamenn að vera góðir í íslensku), heldur bækur mér til skemmtunar. Ég komst næst því hluta úr sumrunum þegar ég var 16 og 17 og vann á skiptiborði, því þegar lítið var að gera gat ég nýtt vinnutímann í lestur.

Þetta sýnir bara að draumar geta ræst allt öðru vísi en ætlað var. Mér líður oft eins og vélmenni í vinnunni, lifandi villuleitarforrit, og það hjálpar svo sannarlega ekki til að til þess að halda einbeitingu þarf ég að slökkva á meirihluta heilastarfseminnar, sem ég held að sé alls ekki hollt og veldur því að ég er eins og heilalaus ljóska þegar ég þarf að eiga samskipti við fólkið í kringum mig. Sem betur fer verð ég orðin fyrrverandi (ekki fyrrum!) prófarkalesari innan tveggja mánaða.

Einn ljós punktur er þó við starfið og það eru skemmtilegu villurnar, sem oft eru svo fáránlegar og fyndnar að þær geta bjargað deginum. Ég hef alltaf ætlað að safna þeim en það hefur því miður ekki náð lengra en að hripa sumar niður á blað. Við tiltekt í gær fann ég svo nokkur þessara blaða og hér eru því dæmi um nokkrar góðar villur.


„Í eigu auðkylfingsins Donalds Trump.“

„Plantan festi hljómsveitina í sessi.“

„Þættirnir hafa fengið góða góma vestanhafs.“

„Ef hann hefði svikið hana á altarinu.“

„Býður upp á nýbreytni frá grillmat og kjötiðnaðarvörum.“

„Hann kemst í sögubrækurnar.“

„Hún elskar andlega þenkjandi bækur.“

„Hins vegar nýtast bökunarkartöflurnar sem komu heim úr bústaðnum um helgina.“

„Hún skar sig út á verðlaunapallinum.“

„Og foreldrum er ekki lengur heimilt að skíra börn sín í höfuðið á japönskum bílum.“

„Að lokum rennið mjúkum kolablýanti inn í augað.“

„Ranía drottning Jórdaníu sameinaðist Hollywood-leikkonunni Reneé Zellweger í síðasta mánuði.“

„Hún vekur athygli hvar sem hún fer vegna glæsileika síns og mannúðarmálanna sem hún framfylgir af ástríðu.“

„Uma kvæntist Ethan.“

„Í þrotabúi hundaræktarinnar.“

„Þar á meðal fyrrverandi forseti Íslands, frú Vigdís Grímsdóttir.“

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er skemmtilegur pistill. Ég afritaði hann og sendi Þórdísi. Semdu fleiri svona pistla. JH