föstudagur, júní 15, 2007

andvaka

Ég held að Pavlov væri ekki ánægður með mig núna. Þrátt fyrir að eiga að búa yfir meiri rökhæfni en hundarnir hans virðist ég bara ekki geta lært af reynslunni og tengt saman orsök og afleiðingu. Ég á nefnilega ekki að drekka kaffi, virðist bara alls ekki þola það, ekki nóg með að koffín fari illa með húðina heldur veldur það líka andvökum (líkt og núna), ég tala nú ekki um þegar ég asnast til að drekka meira en einn bolla á dag.

Þó að kaffiþolið sé lítið vil ég bara svart, sykurlaust, rótsterkt kaffi og það hjálpar reyndar mjög við að halda einbeitingu í þessari tilbreytingalausu vinnu minni. Ef ég drykki ekki kaffi þá myndi ég að öllum líkindum sofna eða hætta að taka eftir textanum fyrir framan mig. Hins vegar er gjaldið fyrir þann lúxus hátt, að vera andvaka er ekkert gaman. Fátt uppbyggilegt hægt að gera á meðan maður reynir að sofna, sérstaklega þegar með hverri mínútunni sem líður styttist í fótaferðatíma. Með litlum svefni eykst líka þörfin á kaffi að morgni til að vakna og halda einbeitingu og þannig heldur vítahringurinn áfram og aldrei man ég eftir bölvun koffínsins fyrr en of seint.

Hins vegar getur verið að ég mistúlki kenningar Pavlovs hér að ofan og sé bara orðin svo hundhlýðin að það að vinna jafngildi því að drekka kaffi. Sumsé að þegar ég sest við tölvuna er eins og bjöllu sé sveiflað og ég hleyp (slefandi?) og næ mér í bolla af kaffi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er ekki nógu gott, einkum þar sem allir vita, að kaffið er bráðhollt, lengir ekki bara lífið heldur eykur líka lífsgæðin til mikilla muna.

Hertu upp hugann. Kaffidrykkjuþolið kemur með æfingunni. Það þýðir ekkert að kvarta, heldur bara æfa og æfa. Takmarkið hlýtur að vera 12 lítrar á dag. Så blir man meget sund.