þriðjudagur, september 11, 2007

sprengjuhótanir

Ég er í skóla sem fær sprengjuhótanir.

Hverjum dettur í hug að senda skólum sprengjuhótanir? Og af hverju senda skólar sem fá slíkar hótanir nemendum sínum tölvupóst um að téðar hótanir hafi borist þeim og öðrum skólum en að þær beri ekki að taka alvarlega? Mér fannst þetta reyndar bara fyndið þar til ég fattaði hvaða dagur er á morgun (í dag hjá ykkur heima) og hvað eru til margir brjálæðingar í þessum heimi sem gæti þótt sú dagsetning táknræn. Ég ætla nú samt sem áður að mæta í skólann á morgun, held einhvern veginn að „alvöru“sprengjarar séu ekki mikið fyrir að senda aðvaranir.

Annars er bara allt gott að frétta. Það hellirigndi hérna í gær (sunnudag), mér til mikillar ánægju, því hitinn og rakinn dagana þar á undan hafði verið óbærilegur. Svo mikið rigndi að litla sakleysislega áin í gilinu sem venjulega hoppar og skoppar bláleit um flúðir og fossa var orðin vatnsmikil, brúnleit og beljandi. Og það var alveg yndislegt að vakna við byljandi regn á rúðum og hafa afsökun til að fara ekki út fyrir hússins dyr heldur liggja bara uppi í rúmi og lesa.

Líka yndislegt vegna þess að kvöldinu áður var smápartí hérna og þar sem boðsgestir voru með eindæmum skemmtilegt og skondið fólk heppnaðist það mjög vel, ekki síst í lokin þegar við fjórir Evrópubúar vorum að telja restinni trú um að Júróvisjón væri hápunktur evrópskrar menningar og tókum brot úr nokkrum vel völdum lögum því til sönnunar ;o)
Mér tókst líka að fá fullt af fólki til að smakka brennivín og ópalskot og voru flestir á þeirri skoðun að brennivínið væri langtum betra (svona öfugt við smekk flestra Íslendinga), þótt engum þætti það beinlínis gott.

Sápuóperan um líf mitt með kettinum heldur áfram. Kisa hefur nú fundið leið til að komast inn í herbergið mitt ef ég loka ekki nógu vel og sækir mjög í það að koma þangað inn og kúra í faðmlögum við skólatöskuna mína, sem undir öðrum kringumstæðum væri voða sætt. Mér líður eins og versta svikahrappi þegar ég lokka hana og alla ofnæmisvaldana hennar út úr herberginu mínu með loforðum um klapp og klór.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er kannski bara hættulegra að vera þarna en í Misr!

hey má maður ekki vita gemsanúmerið eða hvað?

Kveðjur,

Una