föstudagur, september 07, 2007

grammar is glamour

Þessi fyrirsögn er ekki jafnfjarstæðukennd og ætla mætti í fyrstu. Þetta er nefnilega upprunalega sama orðið - í Skotlandi varð frálíking í orðinu grammar og út kom orðið glamour (frálíking er þegar sama hljóðið kemur fyrir tvisvar í einu orði og breytist vegna þess á öðrum staðnum). Þetta viskukorn er komið úr fornenskutímanum sem ég var í fyrr í dag og kennarinn stakk upp á að á þeim tíma hafi þótt svo glamúrlegt að vera málfræðingur (enda voru slíkir menn mjög lærðir og vonandi virtir að verðleikum). Ég er í alvörunni að hugsa um að búa til bol með þessari áletrun til að bæta í málfræðinördabolasafnið mitt (reyndar er bara einn bolur þar enn sem komið er en hann er mjög flottur - með ablatívusarbrandara og allt).

Annars er allt við það sama, vinna, borða, læra, sofa og leika (og horfa á sjónvarpið með sambýlingnum - er orðin sammála Ingu um að netmyndbandaleigur ættu að vera sjálfsögð mannréttindi, ekkert smáljúft að fá diskana bara senda í pósti). Fimmtudagar eru alltaf skemmtilegir því þá er kaffistund í Stóru rauðu hlöðunni fyrir útlendinga og hef ég kynnst ótalmörgu fólki þar - ég var þar áðan og spjallaði og drakk kaffi - kannski fullmikið kaffi, veit ekkert hvort mér tekst að sofna í kvöld/nótt. Síðan er ég farin að dansa - er nefnilega þjóðdansaklúbbur hérna og ég fór þangað á sunnudaginn að læra gríska og serbneska dansa - það var svakafjör og þótt ég væri oftast úr takt þá tók enginn eftir því þar sem hinir voru álíka lélegir og ég. Þannig að stefnan er núna sett á næsta sunnudag og hvaða hopp og hí sem þeim dettur í hug að bjóða upp á þá.

Ég varð mjög hissa í gær þegar ég var að tala við nemendurna mína um íslenska tónlist og bjóst við venjulegu svörunum - Björk og Sigur Rós - sem ég og fékk, en að auki var einn sem hlustar á Bubba og Rottweilerhundana. Og mér til enn meiri furðu vildu þau óð og uppvæg fá slóðina á ruv.is, til að geta hlustað á íslenskt útvarp og horft á fréttir (reyndar var náungi á alþjóðkaffinu jafnóður og -uppvægur að fá slóðina - til hvers er mér hulið).

Afmælisbylgjan mikla er svo að skella á. Sambýlingurinn á afmæli á morgun (og ég var að fatta að ég veit ekki hvort ég á að gefa henni gjöf og þá hvað) og heldur smámatarboð. Þar sem ég á svo afmæli í næstu viku, sem og tveir aðrir í málvísindadeildinni verður hið hefðbundna (að mér er sagt) septemberafmælisteiti deildarinnar haldið hérna á laugardagskvöldið (sem virðist vera hið fullkomna tækifæri til að koma brennivíninu mínu og ópalskotunum á framfæri ;p). Og viku síðar verður að öllum líkindum sameiginlegt afmælishald okkar þriggja sem eigum afmæli þá - er búin að tala við bæði hin afmælisbörnin, en einhverra hluta vegna hefur mér ekki enn tekist að kynna þau hvort fyrir öðru. Þannig að í þessum veisluhöldum öllum er varla nokkur hætta á að mér takist að gleyma því að ég verð árinu eldri (og auðvitað vitrari og betri). Svo eru líka einhverjar líkur á að mér takist að taka einhverjar myndir - myndavélin er orðin mjög einmana, rykfallin og vanrækt uppi á hillu.

Takk fyrir öll kommentin, mér þykir vænt um að sjá að þið munið eftir að tékka á mér (og ég má vera smá væmin, ég er í landi væmninnar - meira að segja Hallmark-búð í klasanum hérna með dóti sem fær drenginn með tárið til að blikna í samanburði).

Og svo að lokum þá er ég ekki með berkla, var sprautuð með einhverjum próteinum í fyrradag og þar sem ekki sér neitt á mér í dag, nema far eftir stunguna, þá er ég örugg og sjúkratryggð :o)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér líkar þetta með grammar og glamour:-)

Mamman

Nafnlaus sagði...

Ablativi sunt ubique!
Ég skal gefa þér svona bol í ammlis/jólagjöf. Ég þarf líka að búa til svo marga nördaboli, þar af nokkra handa Bigga sem ég skil sjálf ekkert í en honum finnst rosa fyndnir... tölvunördar tsk tsk ;)
Gunnhildur

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að kíkja við á blogginu hjá þér :)