laugardagur, september 29, 2007

sápuóperan heldur áfram

Mér og kisu finnst túnfiskur góður. Þegar ég opna túnfiskdós kemur kisa hlaupandi og ég leyfi henni að sleikja dósina og skil alltaf eftir smá fisk í henni. Stundum þegar kisa sér mig þá hleypur hún glaðhlakkalega inn í eldhús í von um að ég elti og fái mér túnfisk (reyndar held ég að henni væri alveg sama þó svo að ég borðaði ekki henni til samlætis heldur leyfði henni að njóta heillrar dósar einni). Þetta er venjulega skondið en er nú dálítið pirrandi þar sem í fjarveru sambýlingsins (sem er að flækjast í borgarferð) þá er ég matmóðir kisu og nú er ekki nóg að skófla kattarmat í skálina hennar til að stöðva vælið, heldur étur hún hann með bestu lyst og reynir svo að kría út úr mér túnfisk að því loknu. Mér væri reyndar ósárt að gefa henni svoleiðis góðgæti daglega en gallinn er bara sá að hún er á sérstöku megrunarfæði (sem lítur mjög ógirnilega út) og það myndi fljótlega koma í ljós ef ég færi að gefa henni aukabita.

Þessi færsla sýnir ágætlega að ég er alveg að detta úr bloggformi, hef alveg ótalmargt að segja og skrifa svo bara um köttinn, sem ég á ekki - og mér líkar ekki einu sinni við ketti!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hver á að gefa kettinum um jólin og halda honum félagsskap?

Geturðu nokkuð farið í jólafrí?

Aumingja kisa.