miðvikudagur, febrúar 13, 2008

andleysi og almenn svengd

Ég þjáist af andleysi þessa dagana, mig langar til að skrifa eitthvað frumlegt og skemmtilegt hérna en það virðist vanta einhverjar tengingar í mig. Ég kenni nammiskorti um - eða réttara sagt skorti á góðu nammi - því þegar besta súkkulaðið sem hægt er að fá á svæðinu er ritter sport, þá er greinilega ekki um auðugan garð að gresja. Lakkrís fyrirfinnst ekki hérna (nema rauður jarðaberjalakkrís) og kökurnar í bókasafninu eru hættar að vera spennandi. Þannig að upp á síðkastið hefur aðalnammið mitt verið kasjúhnetur (sem eru alveg yndislega góðar) og svo einhverra hluta vegna eru frosnar gulrætur saltaðar og hitaðar í örbylgjuofni allt í einu orðnar mjög gómsætar (húðinni til mikils ama). Og þegar svo er komið er þá að furða að andleysi ríki?

Andleysið nær líka að matargerð, sem er svo sem allt í lagi þegar það snýr bara að mér en verra er það þegar ég þarf að fara með mat eitthvert. Ég reyndar sneri mig út úr því á laugardaginn þegar var samskotamatur (e. potluck) hjá Becky og bauðst til að koma með drykkjarföng í staðinn fyrir mat. Enda vill fólk venjulega að ég mæti með eitthvað þjóðlegt og það eina sem mér dettur í hug fyrir utan þorramat er ýsa með kartöflum og fisk, hvort sem er frosinn eða ferskan, er erfitt að finna í þessum bæ.

Reyndar er mikil eftirspurn eftir súrsuðum hrútspungum og hákarli hérna - aðallega vegna þess að fólk trúir því ekki að þetta sé í alvörunni borðað. Ég held að ég eigi minn hluta í því að dreifa út (ó)hróðri þessara matartegunda en sambýlingurinn, sem hefur verið hérna lengi, minnist oft á Þorrablót sem var haldið fyrir nokkrum árum þar sem þetta góðgæti var á boðstólum og hana hryllir enn við því og segist aldrei hafa verið jafnfegin því að vera grænmetisæta og þá.

Íslendingafélag Íþöku heldur svo Þorrablót á föstudaginn og þar sem ekki tókst að smygla neinum hefðbundnum þorramat hingað þá virðist dagskipunin vera sú að mæta með útlendinga og „kenna“ þeim að drekka íslenskt brennivín. Ég átti pela fyrir áramót sem ég mætti með í tvö partí - í því fyrra voru málvísindanemar sem þræluðu því í sig með herkjum en í því síðara vakti það töluverða lukku og tveir kunningjar mínir frá Ísrael og Nýja-Sjálandi lýstu því yfir að þetta væri besta áfengi sem þeir hefðu smakkað.

En svo ég snúi mér aftur að laugardagskvöldinu, þá spannst umræða um nemendur og maka þeirra og hófst hún á því að eiginkona eins stráksins hrósaði eiginmanni húsráðanda fyrir að hafa flutt með henni þrátt fyrir að vera karlmaður. Mér fannst þetta skrýtið orðalag hjá henni en í ljós kom að síðan hún gifti sig fyrir átta árum síðan hefur hún fylgt eiginmanninum á hvern þann stað sem hann hefur stundað nám og þau flutt allavegana sex sinnum. Þegar ég benti henni á að það væri kominn tími á að hún flytti eitthvert og léti hann elta sig, svaraði hún því til að það kæmi ekki til greina þar sem hún hefði veðjað öllu á framtíð hans. Þegar þarna var komið sögu langaði mig til að benda á einhver íslensk dæmi um að þar fylgdu karlmenn konum sínum í nám (til að sýna fram á styrkleika og sjálfstæði íslenskra kvenna), en mundi ekki eftir einu einasta dæmi um það, en mundi eftir mörgum tilvikum þar sem par fer saman í nám eða konan fylgir karlinum. Mér fannst það athyglisivert og það skekkti jafnréttisgleraugun mín svolítið.

Meðal annarra viðburða vikunnar má nefna að mitt lið vann enn einu sinni ekki í kráarspurningakeppninni - þrátt fyrir að hafa lagt mikinn metnað í val á nafni liðsins. Kvikmynda- og körfuboltaspurningarnar voru eitthvað að flækjast fyrir okkur að þessu sinni. Og svo eignaðist ég nýja uppáhaldshljómsveit eftir að hafa séð myndina Control, sem var mjög góð og fallega sjónræn. Reyndar er spurning hvort hægt er að kalla hljómsveitina nýja, þar sem söngvarinn dó áður en ég fæddist og ég hef oft heyrt lög með sveitinni án þess þó að tengja þau saman.

Engin ummæli: