sunnudagur, febrúar 17, 2008

biluð plata

Eitt af því sem mér finnst mest þreytandi við að vera í útlöndum er hvað margir verða uppveðraðir þegar ég segist vera íslensk og tjá mér hvað þá langar mikið til Íslands og fara að spyrja mig út í tónlist, náttúruna, veðurfar, verðlag og fleira. Stundum er gaman að fá athygli út á þjóðernið (og alltaf merkilegt að sjá hvað Ísland er vinsælt) en þegar ég er mikið meðal fólks sem ég þekki ekki, eins og raunin var í gær og fyrradag, og þarf að svara sömu spurningunum aftur og aftur og er farin að hljóma eins og gömul, biluð plata frá Ferðamálaráði verður það fljótt leiðigjarnt. Aðrir útlendingar sem ég þekki hérna virðast varla verða fyrir neinu áreiti, fólk spyr í mesta lagi hvaðan þeir séu.

Ég held að Danmörk sé eina landið sem ég hef komið til þar sem heimamönnum þótti ekkert merkilegt við Íslendinga. En alls staðar annars staðar vek ég mikla athygli. Til að líta á björtu hliðarnar þá minnist þó enginn hér á íslenska hestinn, en það var oftast það fyrsta sem Þjóðverjar nefndu og ég átti alltaf í mesta basli með að svara spurningum þeirra þar að lútandi. Reyndar á ég í svipuðum vandræðum hérna með íslenska tónlist því ég hlusta ekki á þær íslensku hljómsveitir sem eru vinsælar hér og veit oft lítið um þær nema nafnið eitt.

Stundum finnst mér að ég (og aðrir Íslendingar í útlöndum) ættum að fá prósentur fyrir alla þá landkynningu sem við stundum.

Engin ummæli: