laugardagur, febrúar 02, 2008

dagur í lífi mínu

Dagurinn sem nú er nýliðinn (föstudagur) var ansi góður. Mér tókst að vakna eldsnemma og fann varla fyrir verkjum í bakinu - en á miðvikudaginn las ég um jógaæfingu sem ætti að lækna fólk af vöðvabólgu og fylgdi leiðbeiningunum af kostgæfni til að losa um stífar herðar með þeim afleiðingum að hver einasti vöðvi í bakinu á mér var aumur á fimmtudaginn. Til að lifa af skóladaginn tók ég fjöldamargar verkjatöflur og skolaði þeim niður með kaffi, til að vinna gegn slævandi áhrifum og svefnleysi undanfarinnar nætur. En eftir heimatilbúna slökunarmeðferð (drekka bjór til að slaka á vöðvunum og fara svo í heita sturtu) og nægan svefn var ég næstum eins og nýsleginn túskildingur í morgun.

Það var slydda og frekar hált úti og því var öllum skólum (nema háskólanum - þó svo að mæting þangað væri valfrjáls) í nágrenninu lokað vegna veðurs, sem varð til þess að kennarinn sem átti að kenna fyrsta tímann mætti ekki. Hins vegar fórum við báðir nemendur hans og fengum okkur kaffi saman og þannig hitti ég fyrstu manneskjuna hérna sem hefur áhuga á fornum tungumálum á svipaðan hátt og ég, en hún blandar saman fornleifafræði, málvísindum og mannfræði. Og það sem meira er, þá ætlar hún að tala við súmerskukennarinn sinn og spyrja hann hvort ég megi sitja í þeim tímum þrátt fyrir að hafa ekki tekið fyrri hluta þess námskeiðs á haustönninni - ef úr því verður fæ ég að vinna með alvöru súmerskar töflur í mars og apríl (skólinn á víst mörgþúsund slíkar).

Síðan tók við frönskutími og ég er enn undrandi á því hversu auðvelt er að læra að skilja skrifaða frönsku með þeirri aðferð sem er notuð. Eftir tvær vikur get ég lesið setningar sem byggja ekki bara á samheitum heldur eru um gildi vinnu, að þrátt fyrir að Marie sé sæt þá sé hún líka gáfuð og hvernig himneskir líkamar verða að lúta eðli náttúrunnar (ég ætlaði skrifa þessar setningar hér, en vegna þess að bókin er uppi í skóla og námskeiðið gengur ekki út á það að geta tjáð sig neitt á þessu fagra tungumáli - læt ég það bíða betri tíma ;p).

Eftir það fór ég í langt hádegisverðarhlé með Brandi, sem er álíka matvönd og sumir sem ég þekki heima (nefni engin nöfn ;o)), svo við enduðum á því að fara á tvo mismunandi staði - en það var gaman. Lærði síðan (það tilheyrir víst) og fór svo á TGIF (í húsnæðinu sem leysir Rauðu hlöðuna af á meðan hún undirgengst breytingar) þar sem ég hitti Calanit, Itay, David og Richard. Síðar um kvöldið fór ég svo heim til þess síðastnefnda og spilaði við hann og vini hans - fékk að vera með eftir að hafa einhvern tíma talað um hvað ég saknaði þess að spila - spilið var mjög skemmtilegt og gekk út á að það að leggja undir sig heiminn að fornu með smákænsku. Einhverra hluta vegna tókst mér að vinna og sýna þar með fram á að Fönikíumenn hefðu staðið Rómverjum, Grikkjum og Germönum framar að öllu/flestu leyti.

Um daginn fann ég síðu með skopteikningum (er til eitthvert annað orð fyrir "comic strip"?) af háskólalífinu - sumt er óþægilega satt - og hér er hægt að skoða (ýta svo á previous eða next til að sjá fleiri).

Og vegna verkja og anna þá eru þó nokkur ósvöruð bréf í tölvupósthólfinu mínu - sem verður svarað við fyrsta tækifæri, ég var bara í meira blogg- en bréfastuði í kvöld og núna kallar rúmið hástöfum á mig og lofar mér fögrum draumum ef ég gegni fljótt.

Engin ummæli: