fimmtudagur, febrúar 14, 2008

hæðartölfræði

Þessa dagana er varla talað um annað en Clinton og Obama og kapphlaupið á milli þeirra. Flestir hérna styðja Obama, bæði nemar og fólk í bænum (samanber skiltatalninguna mína um daginn) og á ofurþriðjudeginum var Tompkinssýsla (sem inniheldur Íþöku og nágrenni) eina sýslan í New York-fylki sem valdi hann fram yfir öldungardeildarþingmann fylkisins. Nýjustu rökin á lesstofunni fyrir því að Obama eigi frekar að vera forsetaefni demókrata eru þau að hann er mun hærri í loftinu en McCain og munar um það bil 15 sentimetrum á þeim (McCain er víst ekki nema 170 sentimetrar á hæð). Ástæðan er sú að síðan farið var að sjónvarpa kappræðum forsetaframbjóðenda hefur sá hávaxnari nær undantekningarlaust unnið. (Hér er tengill á grein á Wikipediu þar sem sjá má töflu um fylgni hæðar og sigurs í bandarískum forsetakosningum.)

Þetta gengur reyndar ekki alltaf eftir því bæði Al Gore og John Kerry voru/eru hærri í loftinu en Bush og eins og einhver benti á þá hefur kona aldrei verið í framboði þannig að þessi tölfræði spáir ekki fyrir um hvaða möguleika Hillary myndi eiga. En samkvæmt opinberum tölum er hún ekki mikið lægri en McCain og því bara spurning hversu háhælaða skó hún á ;o)

Engin ummæli: