laugardagur, mars 15, 2008

drekafórn

Nú er vor í lofti, þó svo að þeir sem hafa dvalið hér lengi bendi á að í venjulegu árferði geti snjóað allt fram í maí. Að þeirri svartsýni frátalinni þá er vorlegt um að litast, fyrstu blómin hafa skotist upp og það er hægt að vera úti úlpulaus.

Í gær var framin nokkurs konar árleg vorfórn á skólalóðinni þar sem dreki var brenndur. Nemendur í arkitektúr byggja árlega dreka og fara í skrúðgöngu með hann um skólasvæðið, þegar þeir fara fram hjá verkfræðibyggingunni bíður þeirra óvinur, oftast í líki fönix, og þeir berjast. Drekinn vinnur alltaf og er síðan brenndur við mikla athöfn. Þetta er sagt vera gert í tilefni dags heilags Patreks til að minnast þess að hann rak allar slöngur frá Írlandi (og drekar eru oft taldir með slöngum). Drekinn í ár var frekar lufsulegur, miðað við myndir sem ég hafði séð af drekum fyrri ára - en hann brann hratt og vel.*

Á miðvikudaginn fór ég svo með Calanit að mála egg, í tilefni páskanna - við vorum reyndar þær einu sem mættum án barna á staðinn en skemmtum okkur álíka vel og börnin við að dýfa eggjunum í allskyns liti og teikna mynstur á þau. Útkoman varð kannski ekki jafnglæsileg og vonir stóðu til, enda vorum við algerir byrjendur.*

Og síðast en ekki síst þá hófst í dag vikulangt vorfrí, þvert á ímynd slíkra vorfría þá ætla ég ekki að fara til Flórída á fyllerí, heldur fer ég í fjögurra daga ferð með öðrum útlendingum til Washington. Þetta er ferð skipulögð af útlendingaskrifstofunni hérna og lítur ansi hreint vel út - en ég verð örugglega komin með ofskammt af söfnum og menningu þegar ég kem aftur til Íþöku.


*Ef ekki væri fyrir hárfínt fegurðarskyn tölvunnar minnar (sem harðneitaði að birta slíkan óskapnað) þá væru hér meðfylgjandi myndir af lufsulegum dreka og illa máluðum eggjum.

Engin ummæli: