fimmtudagur, mars 13, 2008

heilaþvottur

Um daginn rakst ég á nokkra ljóskubrandara á netinu og í stað þess að brosa að þeim móðgaðist ég, sem mér þótti skrýtið því venjulega snerta slíkir brandarar mig alls ekki. Eftir nokkra umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að líklega hafi ég verið heilaþvegin. Hérna heldur fólk því nefnilega statt og stöðugt fram að ég sé ljóshærð – og til að byrja með hélt ég því fram á móti að ég væri alls ekki ljóshærð. Ég hef þó linast töluvert í afstöðu minni upp á síðkastið (þar sem ég er óneitanlega með ljósara hár en flestir sem ég umgengst hérna) og nenni ekki að rífast yfir svona smáatriðum. Nú er ég hins vegar orðin hrædd um að undirmeðvitundin hafi tekið mark á þessu bulli í fólki og undanlátssemi í mér og skilgreini því ljóskubrandara sem eitthvað mjög neikvætt, jafnvel persónuárásir.

Eftir þessa nýtilkomnu viðkvæmni mína fyrir bröndurum og grun um óæskilegan heilaþvott, hef ég ákveðið að láta það vera að flytja nokkurn tíma í Hafnarfjörð.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

af hverju fylgdu ekki brandararnir? :)

u.

Kolfinna sagði...

Ég held að ég hafi gleymt slóðinni til að forða sjálfri mér frá frekari þjáningum ;p

Nafnlaus sagði...

Þrátt fyrir að vera afar ljóshærð hef ég aldrei móðgast yfir ljóskubröndurum, þeir eru þvert á móti uppáhaldsbrandararnir mínir :D (kannski ég sé dökkhærð í undirmeðvitundinni) - úlla