laugardagur, mars 01, 2008

heppin

Stundum er alltof auðvelt að gleyma því hvað við erum heppin að vera íslensk. Við getum bölvað landinu okkar í sand og ösku og kvartað yfir dýrtíð, klíkuskap, leiðinlegum veðrum og fjarlægð frá næstu löndum. Allt getur þetta verið pirrandi en í augum fólks frá öðrum löndum myndu þetta vera lúxusvandamál.

Ég borðaði hádegismat með ísraelskum vinum mínum og þau lýstu því hvað þeim fyndist þau vera frjáls hérna. Þau eru frá Haifa sem er landamæraborg og þar er alltaf hætta á sjálfsmorðssprengju- og eldflaugaárásum frá hinni hliðinni, öryggisgæslan þar er ströng og sérstakir öryggisverðir fyrir utan búðir og veitingahús sem leita á fólki áður en það fær að fara inn. Þar þurfa líka allir (bæði konur og karlar) að gegna herþjónustu. Foreldrar þeirra vilja koma í heimsókn hingað en eiga í erfiðleikum með að fá vegabréfsáritun fyrir tveggja vikna dvöl.

Flestir karlkyns kunningja minna hérna koma reyndar frá löndum þar sem þeir verða að gegna herþjónustu og vera svo tilbúnir til að berjast ef til þess kemur og mörg þessara landa eiga í eilífum skærum við nágranna sína. Þegar ég segi að það sé enginn her á Íslandi verður fólk mjög hissa og hlær svo þegar ég bendi þeim á að Íslendingar eigi enga óvini, nánustu nágrannar okkar séu Grænlendingar og fæstir viti hvar Ísland sé nákvæmlega á landakortinu eða hafi engan áhuga á svona örríki.

Aðrir koma frá löndum þar sem hálfgert eða jafnvel algert trúarofstæki ríkir og bara það að hafa aðrar skoðanir en stjórnvöld getur verið lífshættulegt. Svo ég tali ekki um lönd þar sem er mikil fátækt og stéttaskipting. Tyrkirnir og Serbarnir sem ég þekki hérna eru svo mjög hissa á því að Ísland hafi sjálft ákveðið að standa utan ESB, þó svo að forráðamenn ESB hafi nokkrum sinnum lýst því yfir hve auðvelt það yrði fyrir Íslendinga að verða fullgildir meðlimir.

Og þá eru ótalin málefni (sem jafnvel Bandaríkjamenn öfundast út af) eins og almennt læsi, að allir hafi möguleika á að mennta sig, að við getum ferðast hvert sem við viljum, að allir hafa sama rétt og margt fleira.

Ég er alls ekki að segja að Ísland sé fullkomið, en það kemst mun nær því en flest ríki í þessum heimi og margt sem okkur finnst sjálfgefið finnst öðrum draumi líkast.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ skvís, vildi bara kasta á þig kveðju úr kuldanum og snjónum hér á klakanum. Man ekki eftir að það hafi snjóað svona síðan maður var krakki bara :)
Vona að þú hafir það gott þarna, og ekki er verra að átta sig á því að Ísland er auðvitað bezt í heimi ...þó svo að maður blóti því stundum í sand og ösku ;)