sunnudagur, mars 23, 2008

Gleðilega páska :o)

Það er hálfskrýtið að vera hér um páska, ekkert tilstand, ekkert helgihald, bara venjulegur sunnudagur og ég þarf að mæta í skólann á morgun. Það eina sem minnir á páskana er páskanammið í búðunum. Ég ætla ekki að halda daginn neitt sérstaklega hátíðlegan, þarf að fara upp í skóla á eftir og undirbúa morgundaginn. Í þessum skrifuðu orðum ligg ég þó í rúminu, hlusta á tónlist og borða hnetu-mogm, því þau eru egglaga og æt (ólíkt sumu namminu hér).

Í gærkvöldi horfið ég svo á fyrstu Star Wars-myndina (þessa frá 1977), sambýlingnum fannst það mesta hneisa að ég hefði aldrei séð hana og þegar Esra viðurkenndi slíkt hið sama þá var ákveðið að hafa sérstakt kvöld til að kynna okkur fyrir meistaraverkinu. Við vorum heima hjá Esra (sem var frábær gestgjafi) og John bættist í hópinn. Ég verð að viðurkenna að mér þótti myndin ekkert spes, bjóst við miklu meira, en ætla að láta tilleiðast að horfa á hinar myndirnar. Reyndar held ég að (T)Raumschiff Surprise hafi haft slæm áhrif á mig, þar sem stælingin á Darth Vader í þeirri mynd heitir Jens og notar astmapúst, svo að ógnvekjandi hljóðin í DV þóttu mér bara fyndin.

Ferðin til Washington var æðisleg og ég ætla að skrifa nánari lýsingu á henni fljótlega, ég fór á mörg söfn, borðaði góðan mat, kynntist nýju fólki og sá öll helstu minnismerki borgarinnar. Það eina neikvæða við ferðina var að ég fékk slæma eyrnabólgu, en hún er sem betur fer næstum horfin núna.

Svo rakst ég á stjörnuspána mína fyrir daginn í dag og langar að vita hvað enina getur þýtt. Ég kannast ekki við orðið og sé engin augljós stafavíxl eða misritun, þannig að allar tillögur eru vel þegnar.
Meyja: Í heimsbókmenntunum er sönn ást sjaldan enina sæla, og kostar yfirleitt sitt. En þetta er raunveruleikinn. Þú getur fundið hamingju í sambandi og gerir það. Endir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sæl kolfinna og gleðilega páska!

hér er nú ekkert tilstand heldur, bara göngutúrar og afslappelsi. eða eitthvað í líkingu við það, ungfrú elísabet er nú stundum ekkert á þeim buxunum að sofa þannig að aflsappelsi þýðir í raun bara að vera heima og hugga barn.

fékk mjög viðeigandi málshátt. milt er móður hjarta. þetta er held ég í fyrsta sinn sem ég fékk eitthvað viðeigandi.

gaman að ég skuli hafa verið svo hamingjusöm í draumi þínum. ég er það þá einhvers staðar. hehe.

jæja, cheerio í bili.

Kolfinna sagði...

Hehe, ég held að ég hafi aldrei fengið viðeigandi málshátt - nema ef þú telur kínverskar spákökur með, en skilaboðin sem ég fæ úr þeim fjalla venjulega um hrylling þess að vera einhleyp og hvað það sé nú gott að gifta sig o.s.frv. (og ég er venjulega sú eina við borðið sem fæ svoleiðis spádóma).

Takk fyrir myndina, ungfrúin er voðalega sæt og broshýr á henni :o)

Nafnlaus sagði...

Ertu á lífi???

Hvaða voðabloggleysi er þetta?

Áfram nú, byrja að skrifa. Hér er allt með kyrrum kjörum. Kv. una