miðvikudagur, júní 11, 2008

ekkert spes

Veðrið skánaði loks í gærkvöldi en þá rigndi um kvöldmatarleytið og var orðið nógu kalt um tíuleytið til að bregða yfir sig peysu (sem ég gerði ekki, enda naut ég þess að verða smákalt eftir hitabylguna). Í dag hefur hitinn ekki farið yfir 30 gráður og því líft innanhúss sem utan.

Ég naut góða veðursins í gærkvöldi með því að fara í langa gönguferð með nokkrum af þeim sem ég tók kennslufræðinámskeiðið með síðasta haust og voru fyrstu kunningjar mínir í Íþöku. Það var svolítið eins og að hverfa aftur í tímann því tvö þeirra hafði ég ekki séð síðan í haust og ekkert þeirra á þessari önn. En það var gaman að hitta þau aftur og algjör synd að við skulum ekki hafa haft meira samband í vetur. Við gengum að Cayuga-vatninu og sátum þar í rigningu og töluðum saman, meðal þess sem ég komst að var að ég er ekki eina manneskjan sem píri augun og ímynda mér að fyrrnefnt vatn sé úthaf, það er til fólk sem hræðist hluti í veruleikanum sem það sér ógnvekjandi í hryllingsmyndum, jörðin myndi ekki hreyfast þótt allir jarðarbúar hoppuðu á sama andartaki, það ríki sem heiminum stafar mest hætta af er Kína og að það er hægt að fá sekt fyrir umferðarlagabrot með því að ganga yfir götu á rauðum kalli.

Fótboltaáhorf mitt stefnir í 25% (það er einn leikur annan hvern dag) og hef ég að mestu stundað þá iðju með Þjóðverjum og Japönum. Ég hef hins vegar ekki séð neinn af góðu leikjunum en vona að það lagist á morgun. En ég hef tekið eftir að sjónvarpsþol mitt er orðið afar takmarkað og veit ekki hvort ber að hryggjast eða gleðjast yfir því.

Annars er nákvæmlega ekkert að frétta eins sorglegt og það nú hljómar, nema að ég get enn ekki sofnað án þess að taka svefntöflur (sama hvað ég reyni), en að sumu leyti er það reyndar kostur því ég er ekki lengur bundin af þreytu (fyrr en úrillskan byrjar).

Og síðast en ekki síst þá er afmælisbarn vikunnar amma sem varð áttræð í gær :o)

Engin ummæli: