sunnudagur, júní 29, 2008

jamm og jæja

Stærsta menningarsjokkið sem ég hef orðið fyrir hérna snýr að barneignum. Tvær stelpnanna í deildinni hafa öðru hvoru í vetur verið að plana barneignir, það er hvenær á náms-/fræðimannaferlinum það væri hentugast fyrir þær að eignast barn. Takið sérstaklega eftir eintölunni, konur sem ætla sér að verða fræðimenn hér og eiga ekki heimavinnandi eiginmenn geta víst ekki leyft sér að eiga meira en eitt barn því annað myndi eyðileggja ferilinn (og jafnvel það að eiga eitt er hættulegt). Ég talaði um þetta í fyrradag við tvær aðrar, frá Englandi og Bandaríkjunum. Sú enska sagðist aldrei hafa séð kvenkyns háskólakennara sem ætti börn fyrr en hún kom til Bandaríkjanna og þá bara eina eða tvær, sú bandaríska sagði að fræðimannastörf væru hugsuð fyrir gifta karlmenn sem ættu konur sem sæu um heimilið (barnlausar konur og einhleypir karlar væru næstbesti kosturinn) og báðar sögðu þær að þær þyrftu að velja á milli þess að eignast fjölskyldu eða helga sig fræðunum.

Ég benti þeim á að það væri nú frekar asnalegur hugsunarháttur, og að heima þyrftu konur ekki að velja á milli, því þar væri að miklu leyti hægt að samræma barneignir og frama og konur í þeirra stöðu ættu að berjast fyrir einhverju svipuðu, til dæmis aukningu dagheimila. Sú enska sagðist þá aldrei myndu treysta einhverjum óskyldum sér til að gæta barna fyrir sig á meðan sú bandaríska sagði að það sem gengi á litla Íslandi væri ekki hægt að framkvæma í Bandaríkjunum (hún þagnaði reyndar þegar ég benti henni á að það væri svipað kerfi á öllum Norðurlöndunum og það hefði ekki komist á áreynslulaust). Hvorugri þeirra virtist detta í hug að maðurinn ætti að bera nokkra ábyrgð á börnunum og ég held að báðum hafi þótt hugsanagangur minn barnalegur. En er ekki eitthvað rotið við kerfi sem gerir ráð fyrir því að vel menntaðar, gáfaðar konur annaðhvort fjölgi sér ekki eða þurfi að víkja af fræðavettvanginum (með doktorsgráðu) um óákveðinn tíma (og missi þar með af framgangi þar) til að sinna barneignum og barnauppeldi?

--------------------
Um daginn var óformleg nördakeppni á milli þriggja í deildinni, alls konar atriði voru talin upp þar til einn strákurinn var einróma kjörinn aðalnördinn þegar hann sagðist aldrei hafa farið á stefnumót með/verið í sambandi við stelpu sem ekki kynni latínu.

--------------------
Á eftir er úrslitaleikurinn á EM. Ólíkt því sem ég hélt í byrjun sumars þá hef ég úr nokkrum stöðum að velja til að horfa á leikinn en býst við að fara á stúdentakrána. Ég vona að liðið mitt standi sig en er engu að síður hrædd um að Spánverjarnir vinni. Fyrr í mánuðinum sá ég hins vegar (mér til mikillar gleði) fyrirsögn í Fréttablaðinu sem sagði Þjóðverja Evrópumeistara (fyrst hélt ég að ég hefði misst úr nokkrar vikur en sá svo að greinin var um vangaveltur og spár um mótið) og nú vona ég að þetta hafi verið áhrínisorð.

--------------------
Þar sem styttist óðum í að ég fari heim þá er ég byrjuð að prufupakka (það er sjá hvaða dót kemst í töskurnar), mamma tók helling með sér en nóg er eftir. Það sem mig langar hvað mest í núna (og myndi auðvelda líf mitt mikið) er taska eins og Mary Poppins átti í myndinni, handtaska sem allt kemst í. Eins og venjulega taka bækur mikið pláss (og vega þungt), þrátt fyrir að ég ætli bara að taka tæpan helming þeirra sem ég hef keypt heim með mér. Það sem kemur mér hins vegar á óvart er hvað ég hef keypt mikið af fötum og hvað þau eru plássfrek, eins og þau litu nú öll út fyrir að vera sakleysisleg og fyrirferðarlítil þegar ég keypti þau. En ef töskurýmið bregst get ég sent eitthvað með pósti eða notað Heiðuaðferðina (klætt mig í mörg lög) á heimleiðinni.

Engin ummæli: