mánudagur, júní 30, 2008

þrumur og bangsar

Á meðan mamma var í Íþöku ákváðum við einn eftirmiðdaginn að bregða okkur í smá göngu, enda þurfti ég að standa við stóru orðin og sanna að Íþaka væri í raun og sann „gorges“ (gilótt/gorgeous). Þar sem uppáhaldsgilið mitt sem liggur frá strætóstoppistöðinni upp á háskólasvæðið er lokað vegna vorviðgerða sáum við okkur þann kost vænstan að rölta að Áfafossunum (Buttermilk Falls). Þangað er einungis fimmtíu mínútna gangur og þar sem leiðin liggur um stórverslanasvæðið gat ég teymt mömmu í Wegmans, óhugnanlega stóra matvörubúð þar sem úrvalið er svo mikið að ég finn sjaldnast það sem ég leita að (og fer því ekki þangað nema mig langi í góð rúnnstykki) til að sýna henni herlegheitin.

Þegar við nálguðumst Áfafossana sáum við göngubrú sem virtist vera ætluð til þess að gangandi vegfarendur kæmust yfir þjóðveginn án þess að eiga á hættu að slasa sig á bílum. Hvernig sem við leituðum (bæði á þessari hlið og svo hinni á leiðinni til baka) fundum við ekki uppganginn á brúna þannig að við neyddumst til að skáskjóta okkur á milli bíla til að komast á áfangastað. Þangað komnar skoðuðum við skilti um jarðsögu svæðisins og hófum svo giljagönguna. Fyrst gengum við upp með gilinu, í návígi við fossana (sem eru sjö talsins) og köstuðum mæðinni á brú yfir þann efsta og gátum þar valið á milli þess að fara yfir brúna og ganga niður hina hlið gilsins eða fara lengra og komast að vatni sem er þarna í nágrenninu. Við tókum síðari kostinn og fórum eftir slóða sem kenndur var við birni, en þar sem engin viðvörunarskilti voru sjáanleg ákváðum við að þar væri enga birni að finna þrátt fyrir nafngiftina. Reyndar vorum við svolítið hvekktar að ganga eftir bjarnarslóða í gegnum þykkt skógarþykknið rétt fyrir sólsetur (um morguninn höfðum við lesið að leitað væri að þriðja ísbirninum heima - en vissum ekki þá að hann reyndist hafa verið kind) og kannski ekki að ástæðulausu því tveimur dögum síðar frétti ég að birnir hefðu verið á ferð ekkert mjög langt frá þessum stað (en það er óvanalegt).

En þegar okkur leist ekki lengur á skyggnið snerum við við og fórum niður gilið hinum megin og máttum ekki seinni vera. Því þegar við eygðum kóksjálfsalann (einhverra hluta vegna er einn slíkur við allar gönguleiðir hérna) og skýlið sem hann stóð undir hófst þrumuveður og grenjandi rigning. Við þökkuðum okkar sæla að hafa snúið við tímanlega og borðuðum nestið okkar í skýlinu á meðan eldingarnar leiftruðu í kringum okkur (og ansi nálægt sumar) og regnið streymdi.

Eftir hálftíma óveður var okkur loks fært að komast úr skýlinu og rölta heim. Á heimleiðinni sáum við að eldingu hafði greinilega lostið niður í spennustöð því nokkur hverfi voru rafmagnslaus. Við það hafði slokknað á þó nokkrum umferðarljósum á aðalumferðargötunni en löggan var fljót að átta sig og setti upp færanlegar stöðvunarskyldur, upplýstar með neyðarblysum.


Því miður náðum við engum myndum af mórauðum rollum (enda engar á ferli) en í staðinn er hér neðsti fossinn, býsna úfinn eftir hálftíma hellirigningu (til hægri má sjá grilla í stíginn sem við fórum upp).



Hér er svo mynd af stormþrungnum himninum.

Engin ummæli: