laugardagur, mars 03, 2007

nafnið mitt

Síðan ég man eftir mér hef ég haft gaman af því að pæla í nöfnum og merkingu þeirra. Nafn er nefnilega eitthvað sem maður ber alla ævi og skilgreinir mann þar með. Oft er líka gaman að sjá mynstur í nafngiftum, til dæmis þegar börn eru nefnd eftir eða í höfuðið á skyldmennum sínum (oft öfum og ömmum). Nafngiftir geta líka sýnt smekk foreldra og fegurðarskyn þeirra. Og ekki má gleyma hinu fornkveðna - að fjórðungi bregði til nafns. Ég get gleymt mér algjörlega í því að skoða nafnabækur, bæði íslenskar sem erlendar, og er uppáhaldsbók mín án vafa bók Hermanns Pálssonar - Nöfn Íslendinga og er mikla skemmtun hægt að hafa af henni, því Hermann hefur sterkar skoðanir á hvaða nöfn teljist íslensk.

Ég heiti ekki eftir neinum en frægasta nafna mín er líklega Kolfinna Ávaldadóttir, sem sagt er frá í Hallfreðarsögu vandræðaskálds og kemur mikið fyrir í kvæði Davíðs Stefánssonar, þar sem hann yrkir í orðastað Hallfreðs (og hefur skiljanlega alltaf verið í uppáhaldi hjá mér). Sú nafna mín þurfti hins vegar vegna óákveðni Hallfreðs að giftast manni sem hét hinu "fagra" nafni Grís.

Nafnið mitt er sett saman úr tveimur liðum kol og finna. Kol er náttúrulega sama orðið og kol (sem notuð eru sem eldsneyti) og var þessi forliður oft notaður til að merkja dökkt yfirbragð. Finna er hins vegar kvenkyns hliðstæða við Finnur og þau orð eru af sama stofni og Finnar og finnskur. Á þeim tíma sem farið var að nota þau nöfn voru þeir kallaðir Finnar sem nú heita Samar eða Lappar og voru þeir af mörgum taldir göldróttir. Samanber skýringu í orðsifjabókinni þar sem segir um orðið Finni: "Sami, Lappi; dvergsheiti; galdramaður."

Með þessum rökum hélt ég nafn mitt væri fullskýrt og af norrænum uppruna (þó svo að samsvarandi nöfn séu ekki til í granntungunum), en mér til mikillar skemmtunar rakst ég á aðra mögulega skýringu á því um daginn. Ég fór eftir krókaleiðum inn á írska nafnasíðu og sá þar nafnið Caoilfhionn (borið fram kílin), sem mér finnst óneitanlega minna á skrýtna útgáfu af nafninu mínu (stafurinn k er ekki til í írsku, en c er notað fyrir k-hljóð). Samkvæmt skýringu á síðunni (og fleiri slíkum sem ég fletti upp á) þá er það nafn sett saman úr tveimur gelískum orðum caol sem þýðir grannur/mjór og fionn sem þýðir bjartur. Þetta nafn báru víst þó nokkrir írskir dýrlingar.

Miðað við að nafnið Melkorka á að vera íslenskun á írska nafninu Mael Curcaig og Muirchertach hefur orðið Mýrkjartan - er þá nokkuð út í hött að Caoilfhionn gæti hafa orðið Kolfinna?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Írska tlgátan er skarpleg. Fjölmörg íslensk bæjar- og mannanöfn eru af írskum uppruna.

Hermann Pálsson setti saman heila bók um írsk áhrif á Íslandi (ekki má heldur gleyma "Um haf innan" eftir Helga G) Í bók HP er vandlega farið yfir írsk áhrif á íslenskar nafngiftir.

Hann nefnir ekki Kolfinnu. Þessi atugun þín verður þá merkisviðbót við rannsóknir Hermanns.