mánudagur, mars 19, 2007

æsland

Ég var að skoða vefsíðu Framtíðarlandsins og sáttmálann sem þeir vilja að allir skrifi undir. Það er gott og blessað að vilja vernda landið og ég er fullkomlega sammála því að það væri ágætis tilbreyting ef það væri horft til framtíðar þegar stórar ákvarðanir (eins og til dæmis um virkjanir) eru teknar.

Ég hef ekki kynnt mér virkjunarmál nægilega vel til að dæma um gagnsemi/skaða þeirra. Hins vegar (eins illa og það hljómar) er ég með þó nokkra fordóma gegn umhverfisverndarsinnum. Ekki það að ég vilji ekki að umhverfið sé verndað, en mér finnst óneitanlega oft vera mikil hræsnislykt af málflutningi þeirra. Til dæmis virðast flestir þeirra fara allra sinna ferða á einkabílum, því enginn stingur upp á að leggja bílunum og nota strætó eða hjóla/ganga í staðinn (hvað þá að fara á undan með fögru fordæmi). Ég hef heldur ekki tekið eftir því að neinn hafi stungið upp á því að almenningur á höfuðborgarsvæðinu flokki rusl, eins og gert er til dæmis á Ísafirði og gefst vel.

Aðalmálið hjá flestum umhverfissinnum virðist vera að berjast á móti stóriðjustefnu og engu öðru, eins og það sé það eina sem er slæmt fyrir umhverfið. Þeir virðast gleyma öllum "umhverfisslysunum" á höfuðborgarsvæðinu, því það er miklu einfaldara að mótmæla einhverju sem er langt í burtu og sýna fallegar myndir af því, en gleyma því sem skemmt er í túngarðinum. Ekki alls fyrir löngu, einmitt samtímis því að deilurnar um Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst, þá voru ómetanlegar náttúruminjar - hraunmyndanir sem voru einsdæmi (eða nálægt því) á jarðarkringlunni - skemmdar. Og ástæðan var sú að koma þurfti fyrir risarisastórri IKEA-verslun. Farið var þvert á tilmæli Náttúruverndarráðs en enginn mótmælti því eða lagðist fyrir framan gröfur eða sinnti því yfirhöfuð nokkuð. Af hverju ætli það hafi verið?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

af því að ekki er hægt að standast úrvalið í ikea og skemmtibíltúrinn á sunnudögum þangað - umhverfissinnar geta ekki einu sinni staðist þá freistingu! Ikea er nú einu sinni einn af hornsteinum efnishyggju vorrar sem er jú nýju trúarbrögðin - og íkeahúsið nýja dómkirkjan, ekki viljum við nú koma með guðlast? við erum svo politically correct...

Kolfinna sagði...

hehe - efnishyggjan verður sumsé náttúrudýrkuninni yfirsterkari. Að mótmæla álveri er því í lagi ef mótmælandinn getur ekkert grætt á byggingu þess? En Ikea er samgagnleg þjóðargersemi, sem allir græða á, og því er ekkert sagt?

Ég verð mér til hróss að segja að ég hef enn ekki komið í þetta nýja "guðshús" og er líklega ein af fimm íbúum höfuðborgarsvæðisins sem svo er ástatt um. Ég hef ekki enn ákveðið hvort þessi ódönnun er vegna andstöðu minnar við náttúruskemmdir eða bara af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég ætti að komast þangað. Skil ekki þegar fólk/fyrirtæki ákveður að flytja upp í sveit :p