föstudagur, mars 16, 2007

tíminn líður hratt...

Skrýtið hvað tíminn getur blekkt mann, liðið hratt og hægt á sama tíma. Mér finnst vikan hafa liðið hratt en samt þegar ég rifja upp hvað ég gerði á mánudaginn, þá er það óralangt í burtu. Kannski hjálpar það tímablekkingunni að ég þvælist þessa dagana á milli fjögurra vinnustaða og sé ekki fram á alvöru frídag fyrr en í páskafríinu, en þá fæ ég alveg fullt af fríi (sem væntanlega og vonandi fer í ritgerðarskrif og aðra slíka óáran).

Reyndar verð ég að viðurkenna að mér finnst að vissu leyti gaman að hafa of mikið að gera, kannski út af því að þá geri ég miklu meira en annars, er duglegri við að hitta fólk og púsla tímanum listavel saman. Gallinn er samt að þetta er mjög þreytandi til lengdar og stundum langar mig bara til að draga sængina upp fyrir höfuð og sofa.

Annars ber það hæst að í gær var loksins haldið frænkukvöld. Það vill svo skemmtilega til að í móðurfjölskyldu minni erum við 14 frændsystkin og á meðan strákarnir eru níu talsins og tuttugu ár á milli þess elsta og yngsta, þá erum við frænkurnar bara fimm og á bilinu 21 til 27. Svo á stefnuskránni er að hittast reglulega. Það hefur gengið svona upp og ofan, en í gær var sumsé frænkukvöld og ég, Arna, Hekla og Gunnhildur sátum fram á nótt og kjöftuðum saman (einhverjir verða að sjá um að slúðra um þessa fjölskyldu ;o)). Því miður komst Hjördís Lilja ekki, en Hekla kom með Sunnevu litlu (sem er virkilegt krútt). Amma hringdi svo og talaði við okkur, sem setti enn skemmtilegri brag á kvöldið.

Engin ummæli: