fimmtudagur, mars 22, 2007

kvengervðir karlar

Ég var farin að halda að eftir ár í prófarkalestri ættu engar villur að koma mér á óvart lengur, en þar skjöplaðist mér. Í kvöld las ég yfir viðtöl við fjóra karlkyns þjálfara kvennaliða í körfubolta, þegar þeir voru spurðir út í hitt og þetta í sambandi við liðin kvengervðu þeir sig alltaf: "Við erum búnar að vera að spila vel." / "Við erum sjálfar okkar aðalóvinur" og svo framvegis. Mér fannst þetta frekar furðulegt og spurði þann sem tók viðtölin hvort þeir hefðu virkilega allir fjórir talað um sig í kvenkyni og hann sagðist hafa skrifað þetta orðrétt upp eftir þeim.

Þó svo að mér hafi þótt þetta fyndið og femínískt og sýnt hversu mikil samkenndin hjá þeim er, þá ákvað ég að rýja þá kvenleikanum og lagaði allar beinu tilvitnanirnar - í flestum tilvikum var nóg að taka "við erum búnar að" og setja "við höfum" í staðinn. Sem betur fer er ég ekki fylgjandi þeirri reglu að allt skuli hafa orðrétt eftir viðmælanda, ef mér finnst viðmælandi komast klúðurslega að orði breyti ég því - nema ég skilji ekki hvað hann meinar og þá fær hann bara að vera vitlaus á prenti í friði fyrir mér. Annars heyrði ég gott spakmæli í dag um prófarkalestur - að maður ætti að laga villur en ekki gera blaðamenn að betri pennum en þeir væru - hlýtur eiginlega að gilda um viðmælendur þeirra líka.

Stjörnuspáin mín fyrir morgundaginn (fimmtudag) segir að ég eigi að láta vinnuna eiga sig um stund. Því miður held ég að það gangi ekki - ég stefni hraðbyri á vinnualkanafnbótína :o( En það er alveg að koma páskafrí :o)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Las síðustu þrjár færslur. Allar góðar. Þetta um náttúruverndar-sinna og meinta hræsni þeirra er eins og talað út úr mínum munni. Hvaðan hefur þú það annars?

Ég bíð bara eftir því að einhver tali um blómin, sem deyja undir malbikinu í Norðlingaholti, sbr. tilfinningasemi Ómars, þegar víðirinn fór undir vatn í Hálslóni.

Skrítið að sjá prófarkalesarann skrifa skrýtið.

Kolfinna sagði...

Hehe, bregður ekki alltaf fjórðungi til fósturs? Ég var orðin svo pirruð á öllu þessu um græna og gráa framtíð - þar sem ekki var minnst einu orði á annars konar náttúruvernd en að sleppa virkjunum.

Skrýtið og skrítið eru jafnréttháar ritmyndir, sama gildir um skrýmsli og skrímsli. Mér finnst ý-ið fara orðunum betur en í, svo ég nota alltaf þá mynd ;o)

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, gaman að sjá loksins bloggið þitt

Kv. Arna