sunnudagur, janúar 13, 2008

svindl (o me miseram!)

Núna ætlaði ég mér að sitja og fylgjast með leiknum Ísland-Tékkland á netinu, sem smásárabót fyrir að missa af EM, en nei, það er ekki boðið upp á netútsendingu - ekki er verið að lýsa leiknum í útvarpinu og það skásta sem ég hef komist í er veflýsing á Vísi - sem er skárra en ekkert en samt ljósár frá því að vera handboltaleikur.

Ég er næstum farin að halda að æðri máttarvöld séu að senda mér skilaboð. Boðin má túlka á tvo vegu, annaðhvort á ég ekki að vera að flækjast í útlöndum eða þá að gera eitthvað gáfulegra en að horfa á íþróttir.

Það voru þrír íþróttaviðburðir sem ég hlakkaði til að fylgjast með í ár: EM í handbolta, EM í fótbolta og ólympíuleikarnir og ég var komin með áætlun um hvernig ég ætti að fylgjast með þeim þrátt fyrir utanlandsflandur.

Ég vissi að þrátt fyrir að útsendingar RÚV á handboltaleikjum næðust ekki á netinu utan Íslands, þá yrði hægt að gerast áskrifandi að leikjum á síðu UEFA. Þegar ég fór svo á þá síðu kom í ljós að sú þjónusta stendur ekki öðrum til boða en þeim sem eru með Microsoft-stýrikerfi. Þannig að sá möguleiki er úr sögunni.

Ég er ekki bjartsýn á að finna einhvern stað hér sem sýnir leiki í EM í knattspyrnu (sjónvarpsrásir eru útilokaðar þar sem hæðir og kapalleysi veldur því að við náum einungis Fox og einhverri kristilegri stöð), en hélt að ég yrði örugg með að sjá allavegana lokaleikina ef ég kæmi heim um mánaðamótin júní-júlí. En í gær komst ég að því að úrslitaleikurinn verður leikinn 23. júní. (Ég verð þó að viðurkenna að ég er orðin vön því að missa að mestu af EM og HM í fótbolta, því útlandaflandur og tilheyrandi sjónvarpsleysi sem og einokun Sýnar hefur orðið til þess að ég hef ekki getað fylgst almennilega með slíku móti síðan sumarið 2000.)

Reyndar eru ólympíuleikarnir eftir ótruflaðir, þannig að ég bíð í ofvæni eftir að sjá hvað kemur í veg fyrir að ég geti horft á þá ;o)

Engin ummæli: