föstudagur, mars 19, 2004

Mér þykir eitthvað svo vænt um svo marga í dag. Ótrúlegasta fólk hefur kvatt mig í dag og óskað mér góðs - sem verður til þess að litlu sálinni minni líður vel og brosir framan í heiminn. Svo núna er ég að hugsa fallega til margra og vona að það komist til skila.

Þetta er annars búinn að vera mjög viðburðaríkur dagur - klukkan 11:20 var ég búin að fara með mömmu upp í skóla og semja fyrirlestur, skila bók í Garðabæ, fara í verslunarleiðangur og var mætt (aðeins of seint) á fyrirlestur hjá Einari um finngálkn. Þetta var virkilega forvitnilegur fyrirlestur og gaman að heyra um allar hugmyndirnar á bak við þessar furðuskepnur.

Síðan fór ég í Ólympsgoð - sem eru yndislegir tímar, ég er svona damemennesket í hópnum, eina konan/stelpan í hópnum, sem er furðulegt því í þeim tímum sem ég er í er kvenþjóðin yfirleitt mun fjölmennari. En þessir tímar eru mjög notalegir, við erum að lesa Myndbreytingarnar eftir Óvíð (á latínu) og höldum svo fyrirlestra til skiptis um mismunandi goð - í dag fékk ég að tala um Apollon og Demeter. Alveg óvart skartaði ég latínubolnum mínum sem Gunnhildur bjó til handa mér - hann vakti smá kátínu, því ablatívusar eru virkilega allsstaðar (og þetta þarf maður að vera soldill nörd til að fatta)

Svo er ég að fara í leikhús í kvöld, að sjá Meistarann og Margarítu - hlakka til, hef heyrt að það sé gott - ég man reyndar ekkert eftir söguþræði bókarinnar enda liðin alveg heil þrjú og hálft ár síðan ég las hana (ég þarf sko að lesa hverja bók tvisvar til að muna söguþráðinn lengi)

Ó svo gleymi ég næstum að minnast á það að gamli skólinn minn tapaði í Gettu betur í gær - sannarlega söguleg stund - ég var samt svolítið fegin, einhvern tímann hlytu þeir að tapa og betra að þeir sem töpuðu hefðu unnið áður, heldur en að það væru einhverjir sem kepptu kannski bara einu sinni og yrði ætíð minnst fyrir að vera liðið sem tapaði. Reyndar var fólk í MR farið að vona að liðið færi nú að tapa þegar ég var í fimmta bekk, því spennan væri farin úr þessu - og það er langt síðan ég var í fimmta bekk, allaveganna fimm sigrar síðan.

Engin ummæli: