föstudagur, ágúst 17, 2007

niðurstöður hávísindalegrar athugunar ;p

Mig hefur alltaf langað til að vita hvað ég les mikið en aldrei nennt að mæla það - þar til 1. ágúst í fyrra, frá og með þeim degi hef ég skráð allar bækur sem ég hef lesið, höfunda, lengd og á hvaða tungumáli þær voru.

Niðurstaðan er sú að á einu ári (1. ágúst 2006 til 31. júlí 2007) las ég 102 bækur sem samtals voru 26.317 blaðsíður. 75 þessara bóka og 17.084 blaðsíður voru á íslensku, 25 og 8.060 á ensku og 2 og 264 á öðrum tungumálum. 13,5 bækur voru eftir íslenska höfunda en 88,5 eftir erlenda. Lestrarminnsti mánuðurinn var október með 2 bækur og 562 blaðsíður, sá lestrarhæsti var júlí með 12 bækur og 3.819 blaðsíður.

Að meðaltali les ég því átta og hálfa bók á mánuði eða 2.193 blaðsíður (hver bók er að meðaltali 258 síður). Sex og einn fjórði af bók eru á íslensku og tveir og einn fjórði á útlensku. Einungis 1,125 bók á mánuði er eftir íslenskan höfund, þannig að hlutfall þýddra bóka er mjög hátt.

Niðurstöðurnar komu mér dálítið á óvart, því fyrir fram hafði ég búist við því að ég læsi meira en tvær bækur á viku - en sveiflurnar hafa verið miklar og farið eftir vinnuálagi og öðru. Gallinn við svona mælingu er sá að komast að því að fjöldi þeirra bóka sem ég mun ná að lesa er teljanlegur - en fjöldi þeirra bóka sem mig langar (og mun langa) til að lesa er óteljanlegur. Annar ókostur er svo sá að sjá svart á hvítu hvað ég les, ekki allt jafnhámenningarlegt og ég vildi ;p

Engin ummæli: