föstudagur, ágúst 31, 2007

heimurinn er lítill

Ég var að koma heim af „fundi“ hjá Evrópufélaginu á svæðinu. Fundurinn fólst í því að hittast á krá, drekka bjór og kjafta við aðra útlendinga (flesta frá Evrópu). Sem var stórskemmtilegt. Ein af þeim sem ég talaði við var þýsk stelpa sem reyndist hafa lært næringarfræði í Kiel og verið þar á sama tíma og ég, ekki nóg með það heldur þekkir hún Catharinu, finnsku vinkonu mína þaðan, þær voru saman í tímum. Heimurinn er svo sannarlega lítill og verður örugglega enn minni á morgun, en þá mun ég hitta flestalla Íslendinga á svæðinu og er viss um að ég þekki/kannast við einhvern þeirra nú þegar (eða einhvern sem þeir þekkja).

Annars erum við Helle á fullu að plana afmælisdaginn okkar - ég hef aldrei fyrr hitt neinn sem á afmæli sama dag og ég og svo hitti ég tvö í sömu vikunni og er búin að lofa að halda upp á afmælið með þeim báðum - og það verður fjör. Í augnablikinu er hugmyndin sú að bjóða fólki í lautarferð með okkur með danska lagköku og kakó og fara í leiki og svo geta þeir sem vilja djammað með okkur um kvöldið. Þetta er reyndar allt á frumstigi ennþá en þar sem þennan merkilega dag ber upp á laugardag ætlum við að reyna að nýta það sem best :o)

Allt í skólanum gengur vel, tímarnir sem ég tek eru hver öðrum skemmtilegri. Setningafræðikennarinn er mjög spes og hún býr til setningar um persónur í Harry Potter til útskýringar, sem er mjög hjálplegt, og hikar ekki við að klifra inn og út um gluggann til að stytta sér leið. Í áfanganum um fornensku erum við að pæla í nýlegum kenningum um að fornenska sé í raun frekar norðurgermanskt mál en vesturgermanskt og í indóevrópska áfanganum erum við að fara yfir tungumálin sem falla undir þann flokk, sem er ofurgaman.

Nemendurnir sem ég hef eru yndislegir og mjög kappsamir um námið. Stofan er þannig að þetta er allt saman mjög huggulegt og óformlegt og eini gallinn er sá að taflan er fulllítil og ég þarf alltaf að vera að stroka út. En við erum með píanó og arin, er hægt að biðja um meira?

Engin ummæli: