þriðjudagur, ágúst 14, 2007

úff & púff

Mér tókst að næla mér í einhverja smápest. Var með verk á bak við augun og í höfðinu í allan dag og var skítkalt þrátt fyrir að vera í peysu í 25 stiga hita. Auðvitað var það á degi þar sem ég þurfti að vera í tímum á milli níu og hálf fimm enda fór ég að því loknu beint heim og upp í rúm (sem mig dreymdi um í allan dag) og tókst að sofa í fimm tíma eða þar til sísvangi kötturinn vakti mig með væli og hurðarklóri. Mér líður töluvert skár núna og vona að ég geti sofið þetta úr mér í nótt, þó svo að það að sofna aftur hafi reynst aðeins erfiðara en ég hugði.

Myndir eru væntanlegar fljótlega - er búin að setja myndavélina í skólatöskuna og ætla að vera dugleg að smella af á morgun, sérstaklega þar sem þá verður spes kvöldverðarboð fyrir okkur aumingjans útlendingana. Og kannski kemur þá líka frásögnin af sjö tíma búðarápi í „klasanum“ á laugardaginn (þar sem æsispennandi verðsamanburður á sængum og koddum, árangurslaust áreiti á símafyrirtæki og kennslustund í suðuramerískri tónlist og menningu voru á meðal dagskrárliða) og einlægu gleðinni þegar ég fann minn gamla kunningja Aldi og múslístykkin sem ég lifði á í Þýskalandi og kannski smákveinstafir yfir því að það virðist vera næstum ómögulegt að kaupa fisk hérna nokkurs staðar í bland við kvart um fábreytni í matsölum skólans (enn sem komið er hef ég ekki séð annað en hamborgara, pítsur, samlokur og súpur) og hugsanleg afhjúpun á uppáhaldsstaðnum mínum á skólalóðinni þessa dagana.

Og svo ég hætti kannski að bulla og fari að sofa þá fann ég góðkunningja mína á youtube - fæ aldrei leið á þessum tveimur (hvort sem um er að ræða persónur eða leikendur). Góða nótt :o)

3 ummæli:

Name withdrawn sagði...

Ég vissi að þetta hlyti að vera nákvæmlega þetta atriði úr Jeeves and Wooster. Veit ekki af hverju ég vissi það, bara vissi það.

Vona að þér batni.

Inga Þóra

Nafnlaus sagði...

Vonandi að þú náir þessari pest úr þér sem fyrst.
Hlakka líka til að sjá myndir frá staðnum, hljómar eins og það sé mjög fallegt þarna :)
Gangi þér vel skvís

Kolfinna sagði...

IÞ: Hehe, þú þekkir mig mjööög vel :o)

A: Það er alveg ótrúlega fallegt hérna - reyndar finnst mér þetta oft vera týnd borg því hún er eiginlega horfin undir skóg (há tré) og því mjög erfitt að taka yfirlitsmyndir.