mánudagur, ágúst 20, 2007

sunnudagur

Í þessum kafla af framhaldssögunni um köttinn og mig ber þess að geta að eftir að eigandinn kom heim þá er ég varla virt viðlits, nema þegar svengdin er kisu alveg að drepa. En ekki kvarta ég yfir því, kisur eru sko ekki mín deild.

Í dag eignaðist ég síma - loksins fann ég (með mikilli hjálp frá sambýlingnum) símafyrirtæki þar sem ég get keypt inneign án þess að borga dollar á dag fyrir að fá að kaupa inneign eða að þurfa að skrifa upp á samning til lengri tíma (reyndar er mínútugjaldið dýrara en í heildina verður kostnaðurinn minni). Síminn sjálfur kostaði bara tuttugu dollara og er mjög einfaldur og sætur, svo nú get ég farið að pirra fólk fram og til baka. Reyndar er stór galli á þessu öllu saman - ég þarf nefnilega að borga fyrir að taka á móti símtölum og sms-um (en það er mjög misjafnt eftir samningum hvernig það virkar). En ég á síma :o)

Hitt afrek dagsins var endurröðun á húsgögnum í herberginu mínu - hefði eiginlega þurft að taka fyrir-mynd, því munurinn er töluverður - ég færði rúmið, þannig að í stað þess að vera frístandandi úti á gólfi og skipta herberginu í tvennt þá er það komið upp í horn (og snýr nú austur-vestur í stað norður-suður) og bókahillan sem var þar er komin á annan stað. Gólfplássið jókst gríðarlega við þetta og nú eru hillurnar nær skrifborðinu og koma að meira gagni (það er að ég þarf ekki að ganga í kringum/yfir rúmið til að komast í þær). Næsta vandamál eru veggirnir - þeir eru ekki fallegir, málningin farin að flagna af og á einum eða tveimur stöðum hefur verið málað yfir með öðrum blæ af hvítum. Spurning hvort það dugi að hengja upp plaköt til að hylja þetta eða hvort aðferðirnar verði að vera áhrifameiri.

Og að lokum hef ég uppgötvað svolítið sem veldur mér áhyggjum. Undanfarna daga hef ég eytt þónokkrum tíma með eðlisfræðinemum og fattaði mér til mikillar skelfingar að ég hef aldrei á ævinni lært eðlisfræði. Ég var reyndar í tímum í Való sem hétu eðlisfræði en þar sem þeir snerust um efnafræði telst það ekki með. Í MR var ég svo á málabraut og lærði þar af leiðandi enga eðlisfræði en þó nokkuð í efnafræði. Þannig að það að reikna fjarlægðir og hraða á milli einhvers er mér hulin ráðgáta sem og að útskýra einföldustu lögmál (þó svo að ég skilji þau stundum í grunninn). Reyndar háir þetta mér ekkert með þessu fólki - því ég skilningur minn á eðlisfræðiumræðum þeirra væri örugglega jafnlítill þrátt fyrir einhvern grunn - samt sem áður finnst mér þetta vera töluverð gloppa í menntun minni.

2 ummæli:

Ragnheidur sagði...

Varð bara að segja þér að ég gekk fram hjá bíl áðan með límmiða sem á stóð Ithaca is gorges og varð að sjálfsögðu hugsað til þín. Ég fylgist sem sagt vel með blogginu þínu ;)

Kolfinna sagði...

hehe - þetta er sumsé úti um allt. Ég les þitt blogg líka reglulega - sérstakleg núna þegar við erum „nágrannar“.