laugardagur, ágúst 11, 2007

ithaca is gorges

Jæja, þá hef ég verið hérna í rúma viku, sem mér finnst reyndar stórskrýtið því á þeim tíma hefur svo margt gerst og ég hitt svo margt nýtt fólk að það virðist vera mun lengri tími.

Kennslufræðitímarnir ganga mjög vel. Við erum fjörutíu í allt og erum í einum sameiginlegum tíma klukkutíma á dag en í tíu manna hópum fjóra tíma á dag. Hópurinn sem ég er í er mjög skemmtilegur og við náum ágætlega saman þrátt fyrir að vera frá flestum heimshornum en fyrir utan mig er þar fólk frá Indlandi (Kenjal og Ravishankar), Rúmeníu (Remus og Catalina), Suður-Kóreu (Soon), Pakistan (Adna), Púertó Ríkó (Raúl), Marokkó (Al) og Tyrklandi (Turan). Í þeim tímum erum við að læra hvernig við eigum að kenna og hvernig við eigum að halda athygli nemenda með mismunandi námsþarfir. Í gær áttum við að kenna í tíu mínútur hvert og fengum svo umsögn um hvernig við hefðum staðið okkur bæði frá kennaranum og hinum nemendunum. Herlegheitin voru tekin upp svo við fengum líka þá ánægju að sjá okkur á sjónvarpsskjá. Ég fékk tvær athugasemdir við kennsluna mína (sem var um hljóðvörp í þróun frumnorrænu yfir í forníslensku í mjög einfaldaðri mynd og lét ég nemendurna breyta orðum fram og til baka til að fá þá til að taka virkan þátt í tímanum), önnur var þessi klassíska að ég talaði ekki nógu hátt - ég veit ekki af hverju en það er eins og ég skynji ekki tónhæðina almennilega þegar ég tala, en vonandi tekst mér að laga það - hin var að ég væri of langt frá bekknum og ætti að koma alveg upp að nemendum, sem er nokkuð sem mér finnst mjög óþægilegt að kennarar geri þegar ég er nemandi og á því erfitt með að gera sem kennari.

Í dag rigndi svo - og það var notalega svalt (bara 18 gráður og engin sól) - svo ég ákvað að ganga í skólann í úðanum í morgun í stað þess að taka strætó upp hæðina. Ég prófaði meira að segja nýja leið, að ganga upp gil sem sker hæðina - það var stórfenglegt og svo fallegt að ganga þarna meðfram á og hvítfyssandi flúðum (mér brá reyndar svolítið þegar ég sá á einum stað, hinum megin árinnar tjaldhimin og steinsofandi mann undir honum). Reyndar var það hörkupuð þó að gangan hafi bara tekið tuttugu mínútur. Gil eins og þetta eru meðal einkenna borgarinnar og úti um allt er hægt að sjá boli og límmiða með áletruninni Ithaca is gorges, sem er orðaleikur því gorges þýðir gil en er borið fram eins og gorgeous (og út frá þessu er líka til áletrunin Ithaca is not George's). Á leiðinni heim gekk ég svo niður gilið og það var einhverra hluta vegna talsvert auðveldara ;o)

Eftir að hafa hlustað á tvær stelpur úr hópnum mínum tala um hvað þær væru svo rosalega uppteknar við námið (áður en skólinn byrjar!) að þær gerðu ekki neitt nema að mæta í þessa tíma og læra var ég orðin svolítið smeyk um að enginn hérna hefði áhuga á félagslífi og ég myndi ekki kynnast neinum af því hvað allir væru uppteknir (og þegar ég er farin að hafa áhyggjur af skorti á félagslífi er örugglega eitthvað að). En í dag var TGIF (tell grads it's friday) á milli fjögur og sjö í Stóru rauðu hlöðunni (Big Red Barn), sem er eins konar félagsmiðstöð nemenda í framhaldsnámi, og ég mætti þangað hálfuggandi yfir því að þekkja kannski engan - en þá sat meirihlutinn af hópnum mínum við borð úti í horni og veifaði um leið og ég kom holdvot þangað inn (því þá hafði rigningin aukist til muna og ég og sumarfötin mín urðum rennandi blaut við það að ganga frá bókasafninu - svo mjög að þegar ég kom inn var Víetnaminn tveir-einn að fara út og bauð mér regnhlífina sína til að hafa á bakaleiðinni, þó svo að hann væri lítt betur klæddur - ég afþakkaði gott boð, sem betur fer því þegar ég fór heim hafði stytt upp og ég hefði fengið samviskubit yfir því að vera með regnhlífina hans). Þetta er í fyrsta skipti sem ég hitti þetta fólk utan kennslustofunnar og umræðuefnin voru ótalmörg og ég vona bara að það að hitta þau verði vikulegur viðburður (því kennslufræðitímarnir eru bara út næstu viku).

Og talandi um þá tíma, þá fór ég í viðtal á þriðjudaginn og þær sem sáu um það (sömu konur og sjá um daglega klukkutímatímann) reyndust báðar hafa komið til Íslands og vildu endilega fá að vita allt sem ég vissi um Magna og Svanhildi Hólm (sitt í hvoru lagi reyndar, þó svo að sögur af þeim saman væru örugglega áhugaverðar) - ég tek það fram að þær minntust á þau að fyrra bragði og vildu vita hvað þau væru að gera núna eftir fimmtán mínútna frægð í Bandaríkjunum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Breytist "gorges" í "gorgeous" innan tíðar fer ég að hlakka til að heimsækja þig!
Frábært að frétta að allt gengur vel, nóg að gera og félagslíf líka.
Sendi líka póst.
K&k
mamman

Nafnlaus sagði...

Góðar fréttir af þér. Vonandi verður þetta alltaf svona skemmtilegt. Tilraunakennslan gengur greinilega vel.

Bærinn er væntanlega notalegur og aðlaðandi staður. Það er allt í lagi að ganga upp í móti aðra leiðina, það verður þá undan brekkunni heim.

Nafnlaus sagði...

Hae, gaman ad lesa hve althjodlegt lifid er hja ther! Nuna munu mannfraeditimarnir gagnast! Hvenaer koma mynidr?

Nafnlaus sagði...

Hver er Svanhıldur Holm? Og heıtır Rumenınn ı alvöru Remus? ;) (Gunnhıldur ludı...)

Kolfinna sagði...

Ójá, ég er á fullu í mannfræðigreiningum hér - er búin að læra ótrúlegustu hluti um aðrar þjóðir, til dæmis að í Tyrklandi er brauð heilagt, bannað að henda því og hægt að sverja á það líkt og Kóraninn :o)

Jamm, hann heitir þetta í alvörunni. Ég þurfti að kíkja oftar en einu sinni á spjaldið með nafninu hans til að trúa því ;o)
SH er sjónvarpskona sem talaði um íslenskar konur í Opruh-þætti og þótti mörgum lýsingin (eða klippingin á henni) koma illa út (lauslæti og þess háttar skemmtilegheit).