mánudagur, ágúst 06, 2007

montag

Í dag fór ég á kynningarmorgunverðarfund fyrir útlenska aðstoðarkennara og verðum við á námskeiði um hvernig eigi að kenna næstu tvær vikurnar. Við erum um það bil fjörutíu sem erum ný og komum frá 15 löndum. Á sama borði og ég sátu Sví, Ísraeli, Víetnami, Indverji, Marokkóbúi, Púertóríkani og Kínverji og virkuðu frekar notaleg öllsömul. Í heildina virtust flestir vera frá Kína og mér heyrðust allir nema ég vera í raungreinadeildum, aðallega í verkfræði og tölvunarfræði.
Við fengum það sem kallast American continental breakfast og samanstóð hann af ávöxtum, kaffi og sætabrauði (það síðastnefnda myndi ég seint kalla morgunverð, allavegana ekki staðgóðan ;p).

Áður en námskeiðið hefst formlega á morgun eftir hádegi eigum við öll viðtalstíma við þá sem eru yfir útlendingakennslunni, þar sem við erum spurð um hvað við ætlum okkur með náminu og hver bakgrunnur okkar sé og eigum að kenna í fimm mínútur til sýnis. Samkvæmt leiðbeiningunum eigum við að velja eitthvað eitt atriði í því sem við munum kenna og útskýra það. Ég ætla að tala um föll í íslensku, þó svo að ég sé alls ekki viss um að geta gert þeim almennilega skil á fimm mínútum (miðað við það pláss sem var tekið í að útskýra föll í ensku latínukennslubókinni sem ég var með í menntaskóla - það var reyndar alveg stórfengleg lesning svona þegar maður fallbeygir án þess að hugsa út í þetta). Minn viðtalstími er ekki fyrr en í fyrramálið svo ég fór með Kínverjunum og opnaði bankareikning og rölti svo um með kínverskri stelpu og eftir að hafa villst þónokkuð (sem er mjög auðvelt, aragrúi af byggingum á svæðinu) römbuðum við að lokum á Collegetown, sem er bæjarkjarni ofarlega á hæðinni sem skólinn stendur á og eiginlega „hinn“ miðbærinn í borginni.

Það eina sem skyggir á veruna hér er að hér er enn alltof heitt og rakt fyrir minn smekk (á örugglega eftir að kvarta yfir kulda von bráðar). Í dag var hátt í þrjátíu stiga hiti og mikill raki í loftinu, reyndar er lofað rigningu á miðvikudaginn en morgundagurinn á víst að verða verri en dagurinn í dag. Skólinn stendur uppi á hárri hæð og þó svo að ég hafi tekið strætó upp hæðina er svæðið mjög mishæðótt þarna uppi, sem í þessum hita gerir mann alveg úrvinda, en það venst og ég verð örugglega komin í hörkuform af öllu þessu príli von bráðar :o)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert gæfusöm, að eiga þetta kennsluefni, konunglegt tungumál og eftirlæti málvísindamanna....

- málið, sem kenndi þér hún amma þín,
það, sem var forðum guðamál í hofum -

....og bráðlifandi forngrip. Manstu, hvað Eddukvæðin voru snjáð eftir áratuga lestur austur í sveit?

Nafnlaus sagði...

Hæ Kolfinna mín. Gaman að lesa um ævintýri þín í útlöndum. Vona að kötturinn sé ekki að valda þér ofnæmi. Þú átt ekkert að hafa samviskubit þó þú sinnir honum ekki stöðugt. Þú átt að hugsa um þína heilsa fyrst og fremst :) Vonandi gekk þér vel í viðtalinu. Hlakka til að lesa um komandi ævintýri :)
Kv. Úlla