fimmtudagur, ágúst 16, 2007

myndir!

Jæja, þá er komið að smá myndasýningu. Ég vaknaði furðu hress í gærmorgun og tók myndavélina með mér í skólann en gleymdi ýmist að taka myndir eða þær misheppnuðust. Mannamyndirnar sem hér koma á eftir eru allar af hópnum sem ég var í - myndir af hinum útlendingunum verða að bíða betri tíma.

Þessi mynd er tekin inni í kennslustofunni okkar, við vorum með svona stólaborð eins og maður sér í bíó og sátum oftast í hálfhring og svo stóð kennarinn í miðjunni (og gekk um) og talaði. En þarna eru Al, Kinjal, Soo, Raúl og Turan og fyrir aftan þau má sjá glitta í spjöld sem við vorum látin gera í hópum fyrsta daginn og á þeim er lýsing á eiginleikum bestu kennara sem við höfum haft.

Eftir þessa mynd varð eitthvað minna um myndatökur en ég ætlaði og ekki einu sinni ein mynd úr löngu gönguferðinni sem ég fór í eftir skólann - þegar ég fann stóra vatnið þegar ég var í leit að Aldi og komst í leiðinni að því að þetta er voða lítill bær, það er að staðir sem ég hélt að væru lengst í burtu eru í göngufjarlægð. Um kvöldið ákvað ég að ganga upp gilið til að komast á skólasvæðið þar sem kvöldverðarboðið var haldið og þetta er gilið margumtalaða (Cascadella Creek) - fyrri myndin er tekin í miðju gilinu og sú síðari rétt áður en lokaprílið upp bratta stiga hefst (alls tekur það mig svona fimmtán til tuttugu mínútur að fara upp gilið).

Ég var frekar ódugleg að taka myndir í kvöldverðarboðinu, var miklu duglegri við að tala og lét meira að segja platast til að fara upp á svið og syngja - huggaði mig við það að enginn þarna kunni Sofðu unga ástin mín svo ef ég var fölsk tók (vonandi) enginn eftir því ;p En þar sem afkastameiri myndasmiðir ætla að deila myndum sínum með okkur síðar hef ég engar áhyggjur. Hérna er mynd af hópnum okkar - reyndar vantar Al - en í efri röð frá vinstri eru Soo, Kinjal, Maria (kennarinn), ég og Catalina og í neðri röðinni eru Remus, Raúl, Turan, Adna og Ravishankar. Vegna vanstillingar á myndavélinni er þessi mynd ekkert mjög falleg og ég er miklu hrifnari af þessari hér - hún er líka miklu óformlegri. Með þessum hluta hópsins fór ég svo að leita að stjörnuhröpum, en þau eiga víst að vera tíð á þessum árstíma. Við fundum reyndar engan nógu dimman stað til að sjá almennilega til en lágum á endanum í hálftíma í döggvotu grasi horfandi upp í himininn og blótuðum götulýsingum og bílum. Ég sá reyndar ekkert hreyfast nema flugvélar en aðrir voru heppnari.

Í dag var svo síðasti dagur námskeiðsins, svona rétt eftir að hópurinn small almennilega saman en við ætlum að reyna að halda sambandi og erum komin með póstlista og ætlum öll að hittast á föstudaginn í Rauðu hlöðunni. En síðustu kennslustundinni lauk á hlutverkaleikjum, þar sem okkur var skipt í hópa og átti hver fyrir sig að leika tvö atriði, annað með góðum kennara og hitt með slæmum kennara. Ég lék góðan kennara sem var ekkert gaman þar sem að allt fúttið var í slæmu hlutunum - koma of nálægt nemendum og jafnvel snerta þá, mismuna þeim eftir kynferði og reka út úr stofunni. Slæmu kennararnir fóru alveg á kostum - þetta var svo tekið upp (alveg gífurleg árátta hjá þeim að taka allt upp hérna) og kennarinn okkar ætlar að sýna okkur þessar upptökur á þakkargjörðarhátíðinni, en hún er búin að bjóða okkur í svona alvöru amrískan mat þá.

Á morgun lýkur svo einveru minni hér - kettinum vafalaust til mikillar gleði - en þá kemur sambýlingurinn minn heim og ég vona bara að okkur eigi eftir að lynda vel. En miðað við bækurnar hennar og dvd-diskana höfum við tiltölulega líkan smekk á mörgu. En þetta er kisan Baby sem er næstum búin að klóra alla málninguna af herbergishurðinni minni. Og til að ljúka myndasyrpunni þá er hérna íkorni í ætisleit fyrir utan bókasafnið. Hér er aragrúi af íkornum úti um allt - í fyrsta skipti sem ég sá slíka veru varð ég mjög upprifin og fékk lagið um Brúsk á heilann, en núna pæli ég ekki lengur í þeim.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var fyrst núna að taka eftir því, hvað þetta eru góðar myndir hjá þér, einkum og sér í lagi myndin úr gilinu.

Kv. JH