laugardagur, ágúst 04, 2007

Fyrirheitna landið

Þá er ég komin á áfangastað og búin að koma mér smávegis fyrir, meira að segja kaupa smá í matinn í lífrænni búð (sem er víst eina búðin sem er í göngufæri frá mér) meðal annars íslenskt vatn í flösku, ligg núna uppi í rúmi og hlusta á svona útlandakvöldhljóð, ég held að þetta sé tíst í einhverjum skordýrum (krybbur heyrði ég einhvern tíma). Fyrir utan herbergisdyrnar vælir köttur, ég lenti nefnilega óvart í því að verða kattapassari fyrir meðleigjanda minn meðan hún er í burtu. Aumingja kisan hefur verið ein svo lengi að hún vill mikla athygli og klapp. Sem væri allt í lagi nema að ég verð að passa mig rosalega að þvo hendurnar á mér ef ég klappa ketti svo hárin valdi ekki ofnæmisviðbrögðum. Núna vælir hún af því ég vil ekki leyfa henni að sofa í rúminu mínu og ekki hleypa henni inn í herbergið mitt (og nú veit ég að allt kattafólkið sem ég þekki er að hugsa hvað ég sé nú vond).

Ferðasagan var furðuviðburðalítil. Flugið var alltof langt en röðin í vegabréfseftirlitinu var samt lengri þó svo að hún hafi „bara“ tekið klukkutíma þá hlykkjaðist hún svo mikið að ég hélt alltaf að hver hlykkur væri sá síðasti. Engar athugasemdar voru gerðar við áritunina mína og ég þurfti ekki að sýna neina aukapappíra.

Þá tók við biðin langa - þar sem ég ákvað að hanga frekar á flugvellinum um nóttina til að vera viss um að ná flugvélinni frá Sýrakúsu en fara á hótel og slappa almennilega af. Þess í stað kynntist ég Terminal 4 á JFK alveg einstaklega vel. Hvar hver búð er og skyndibitastaður, hversu lengi fram eftir staðirnir eru opnir, hvar eru sæti og af hvaða gerð og í hvaða sætum var best að sofna. Fólk lá þarna úti um allt, á stólum, bekkjum og gólfinu sjálfu. Mér tókst að festa blund ótal oft en hrökk oftast upp eftir smástund. Annars var mjög gaman að sitja og horfa á mannlífið í flugstöðinni. Ég sá meðal annars Amish-fólk og hermenn í sandfelulitum með riffla og alveg augljóst að þeir höfðu sloppið við vopnaeftirlit.

En ég náði vélinni daginn eftir og þótt mér hafi fundist ég ætla mér of mikinn tíma í að komast í gegnum allt fyrir innanlandsflug (tvær klukkustundir) þá mátti ekki tæpara standa. Vélin tafðist svo á flugbrautinni og varð því næstum klukkutímabið og önnur taskan mín hafði gleymst á JFK - en sem betur fer fannst hún og var komið með hana til mín. Ég velti reyndar fyrir mér hvort forlögin væru að senda mér skilaboð með því því að í þeirri sem týndist um tíma voru flestallar bækurnar mínar en í hinni áfengið og sælgætið sem ég keypti í fríhöfninni. Vinur stelpunnar sem ég leigi með kom og sótti mig á flugvöllinn þar sem hún er í útlöndum. Hann var mjög hjálpsamur, lét mig hafa lykla og fór svo með mér á skrifstofu málvísindadeildarinnar til að ég gæti kynnt mig fyrir konunum sem vinna þar og bauðst til að fara með mig í alvöru matvörubúð á morgun.

Ég hitti líka leigusalann sem er líklega á sjötugsaldri, fyrrverandi lögfræðingur, sem er núna hálftannlaus, en á víst glás af svona íbúðum sem hann leigir út til nemenda. Hann virkaði frekar notalegur í umgengni. Íbúðin er hins vegar frekar hrörleg og illa máluð og skrýtin, en ég held ég venjist því bara. Annars er umhverfið hér í kring ótrúlega fallegt og þar sem skórinn stendur á hæð gnæfir hann yfir öllu eins og kastali.

Að frátöldum skrykkjóttum smáblundum í flugvélum og á flugvellinum þá man ég varla hvenær ég svaf síðast en finn hvernig Óli lokbrá sækir á. Góða nótt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð ferðasaga. Þú hefðir átt að gefa stráknum, sem sótti þig, eina flösku af víni, helst íslensku brennivíni. Þú getur bætt úr því enn.

Fyrir alla muni vertu góð við köttinn. Það verður þér til góðs. Guð launar fyrir hrafninn og ég held bara fyrir köttinn líka.

Ég vona svo, að þér eigi eftir að líka vel þarna. Allir fyrirboðar eru góðir. Bestu óskir um gott gengi.

Nafnlaus sagði...

Hæ, gaman að sjá að þú skyldir koma ferðasögunni á framfæri svona fljótt. Ekki taka mark á þessu með brennivínið - það getur virkað sem hefndargjöf fyrir þá sem ekki þola slíka drykki. Ýmislegt annað getur túlkað þakklæti - bæði í föstu og fljótandi formi - jafnvel blóm:-) Taktu heilsuna fram yfir köttinn, það fylgir því engin vonska.
Hlakka til að sjá fleiri færslur og fræðast meira um nýja lífið þitt.