sunnudagur, ágúst 26, 2007

allt í gúddí

Jæja, það er líklega kominn tími á nýja færslu hérna. Ég er ekki alveg viss um hvar ég á að byrja, enda er ég algjörlega uppgefin eftir daginn. Það var hátt í fjörutíu stiga hiti og mjög rakt og til að komast í loftkælt umhverfi ákvað ég að fara í matarverslunarleiðangur með þremur strákum sem ég þekki - reyndar líka til að fá smá félagsskap og svo ratar einn þeirra um allt hérna, veit hvar allt er staðsett og hvaða strætó á að taka hvert. Samkvæmt því sem ég hef heyrt eiga dæmigerðir karlmenn helst ekki að vilja vera í búðum, ef það er sönn regla þá eru þessir þrír stórar undantekningar. Ég er ofurfljót að versla í samanburði við þá en það er mjög fyndið að fylgjast með pælingum þeirra um hitt og þetta sem þeir þurfa að kaupa, annaðhvort núna eða fljótlega, allt frá hárþurrkum, sápum og uppþvottagrindum upp í hljómborð og sængurver.

Reyndar langaði mig líka í sængurver en eftir mikla leit í Walmart þar sem við fundum bara pakka með lökum og koddaverum, töluðum við við konu sem hélt því fram að enginn hérna notaði nokkurn tíma sængurver því það væri svo auðvelt að þvo sængurnar. Okkur fannst þetta frekar skrýtið og þegar ég kom heim spurði ég sambýlinginn minn um þetta og hún sagði sængurver víða notuð og lítið mál að finna þau ef maður færi í réttu búðirnar.

Á leiðinni heim byrjaði svo að rigna og þegar ég kom út úr strætó var hellirigning og þrumuveður. Ég hljóp strax inn í næsta strætóskýli og beið veðrið af mér - þar beið líka stelpa frá Kólumbíu sem er nýkomin hingað og við tókum tal saman, skiptumst á símanúmerum og ætlum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Skrýtið hversu auðvelt er að kynnast fólki þegar allir eru á sama félagslega núllpunktinum. Á fimmtudaginn hitti ég nefnilega danska stelpu (sem ég gat talað fullt af dönsku við og er önnur manneskjan sem ég kynnist hér sem á afmæli sama dag og ég) og ástralskan strák (sem var í alvörunni að pæla í því að fara að æfa listdans á skautum þar sem hann getur næstum því skautað aftur á bak) í Stóru rauðu hlöðunni - en á hverju fimmtudagseftirmiðdegi er kaffistund fyrir alþjóðlega nemendur og fjölskyldur þeirra. Þessi tvö voru mjög skemmtileg og við enduðum á að verja meirihluta kvöldsins saman og fórum meðal annars í bíóið sem er á skólalóðinni. Ég held að ég sé að fara að prófa að vera með í alþjóðlegum þjóðdansahóp með þeim á morgun.

Gærdagurinn var líka fjörugur. Byrjaði á stressi við að undirbúa fyrstu kennslustundina. Ég hitti hópinn fyrst á miðvikudaginn til að ákveða hvenær tímarnir ættu að vera og það gekk ótrúlega vel. Kennslustundin gekk síðan ágætlega og þau voru öll sex mjög áhugasöm, höfðu öll lært fallamál áður og sögðust öll vera að þessu til að geta lesið íslenskar miðaldabókmenntir á frummálinu. Þannig að mér líkar nú þegar vel við þau. Tímarnir sem ég verð í á þessari önn líta allir mjög vel út svo þetta ætti að verða hin besta skemmtun :o)

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá er þetta stofan sem ég kenni í:

Stofan er í húsi sem var eitt sinn heimili forseta skólastjórnarinnar (held að það sé þýtt svona) og er húsið nú á tímum oftast notað fyrir tónleika og móttökur ýmis konar.

Í gærkvöldi var svo teiti hjá málvísindanemum til að taka á móti nýjum nemendum. Það var framar væntingum og greinilega margt stórskrýtið og -skemmtilegt fólk í þessari deild. Á tímabili fannst mér eins og ég væri stödd í grínsjónvarpsþætti - þegar upp komst að ein af stelpunum sem var að byrja væri í miðju skilnaðarferli og einn af strákunum óskaði henni til hamingju með það (og sagði að það væri það versta við að mega ekki giftast að geta aldrei skilið) og byrjaði að skipuleggja hverjum hann ætlaði að koma henni saman við. Ekki batnaði það þegar ástæður skilnaðarins komu í ljós en þær tengdust eiturlyfjabarónum og skattsvikum.

Annars er það helst að frétta að ég er búin að læra fullt um eftirnafnahefðir mismunandi þjóða og finnst það mjög spennandi efni.

4 ummæli:

Name withdrawn sagði...

Þessi stofa er eins og borðstofa í bed'n'breakfast ... ekki eins og kennslustofa. Samt hef ég á tilfinningunni að þér eigi eftir að ganga vel að kenna.

-Inga Þóra

Nafnlaus sagði...

Mer finnst thetta frekar minna a stofuna hja Abraham Lincoln! Verst ad thu forst aldrei i pianotima! Eda hvad?

- Una

Nafnlaus sagði...

Þessi kennslustofa er æðislega krúttleg. Örugglega gott að kenna og læra í þessari stofu :)

-Úlla

Nafnlaus sagði...

hehe brilliant stofa skvís. Þú átt eflaust eftir að njóta þín þar :)